Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vill tryggja aðstandendum þeirra sem látast með hætti sem kallar á rannsókn lögreglu, aukinn aðgang að upplýsingum um framgang rannsóknarinnar. Hún mælti fyrir frumvarpi sem tryggja á aðstandendum aukinn rétt í þessa veru, fyrr í vikunni.

Hinn látni fái fyrirsvarsmann

„Aðstandendur hafa kallað eftir að geta fylgst betur með málum, sérstaklega þegar verið er að rannsaka hvernig andlátið hafi borið að,“ segir Áslaug Arna og nefnir sem dæmi að það hafi ekki verið neinn fyrirsvarsmaður látins brotaþola til þessa svo dæmi sé tekið.

„Ég hef heyrt af málum þar sem aðstandendum þykir upplýsingaflæði til sín skammarlega lítið,“ segir Áslaug. Frumvarpið lúti að almennum upplýsingum og leiðbeiningum þegar verið er að rannsaka málin og að hægt verði að fá tilnefndan réttargæslumann til að gæta að hagsmunum hins látna.

„Við höfum séð mál koma upp þar sem óvissa ríkir um hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða slysförum,“ segir Áslaug en aðspurð segir hún að lögreglan hafi ekki gert athugasemdir við þessar hugmyndir.