Fyrsti umhverfisráðherra Íslands, Júlíus Sólnes, segir nóg komið af stóriðju hér á landi. Hann vill algjört stóriðjustopp á Íslandi um ókomna tíð en hafnar á sama tíma vindmyllugörðum hérlendis.
Fram kom á Fréttavaktinni á Hringbraut í viðtali við Júlíus í gærkvöldi að lukkuriddarar sem reki áróður fyrir vindmyllum tali nú á svipuðum nótum og þeir sem áður töluðu fyrir laxeldi í öllum fjörðum hérlendis í eiginhagsmunaskyni. Júlíus segist hafa grun um að Norðmenn standi að baki þeim Íslendingum sem hafi hæst um vindorku hér á landi.
Veðrið er vandamál fyrir vindorku hér á landi, að sögn Júlíusar, einkum ofsaveður. Þá yrðu sjónræn áhrif mikil og orkan yrði stopul í stað þess að vera örugg alla daga. Ekki væri hægt að reka iðnað sem byggði á þessari orku.
Einnig segir Júlíus að íhlutir í vindmylluorkugörðum séu ekki umhverfisvænir. Vindorka sé því ekki algræn þótt sums staðar þyki hún góð viðbót.
Júlíus gerir einnig athugasemdir við þá pólitísku ákvörðun að allt rafmagn frá Kárahnúkavirkjun fari á lágu verði til eins fyrirtækis. Hann telur nóg komið af stóriðju.
„Ég sé ekki fyrir mér að hér verði byggð nein stóriðjufyrirtæki frekar,“ segir Júlíus, verkfræðingur og fyrsti umhverfisráðherra landsins.