Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra lagði fram lagafrumvarp um bætur vegna ærumeiðinga á Alþingi í dag. Verði frumvarpið að lögum verða refsingar vegna ærumeiðinga afnumdar.

Áslaug leggur til að ákvæði laga um ærumeiðingar verði færð úr almennum hegningarlögum yfir í sérstök lög. Lagt er til að úrræði verði bundin við einstaklinga og að lögaðilar njóti ekki þeirrar æruverndar.

„Í meiðyrðamálum vegast iðulega á tvenns konar réttindi, annars vegar friðhelgi einkalífs og hins vegar tjáningarfrelsi,“ segir í greinargerðinni en ljóst er að almenn lög veiti margs konar vernd gegn árásum á æru og hafa gert svo frá upphafi laga hér á landi að því er fram kemur í frumvarpinu.

Bent er á að núgildandi ærumeiðingarákvæði almennra hegningarlaga fara á ýmsan hátt í bága við stjórnarskránna og mannréttindasáttmála Evrópu. Í fyrri lögum um ærumeiðingar kemur fram að einföld móðgun geti varðað allt að eins árs fangelsisvist, jafnvel fjögur ár ef aðdróttunin beinist að forseta Íslands.

Tjáningarfrelsi tryggir nauðsynlega þjóðfélagsumræðu

„Í ljósi aukins tjáningarfrelsis, viðtekinna viðmiða um að refsingar vegna tjáningar horfi illa við mannréttindaákvæðum, svo og dómaframkvæmdar mannréttindadómstóls Evrópu þar sem slegið hefur verið föstu að einungis í algjörum undantekningartilvikum sé heimilt að refsa mönnum vegna ummæla, verður að telja að fangelsisrefsingar af þessum toga teljist seint uppfylla áðurnefnt skilyrði um nauðsyn í lýðræðislegu þjóðfélagi,“ segir í frumvarpinu.

Áslaug segir ljóst að brýn þörf sé á að endurskoða ærumeiðingarákvæði hegningarlaga vegna vankanta á ákvæðum og þeirra áfellisdóma sem íslenska ríkið hefur fengið hjá mannréttindadómstóli Evrópu sem hefur ítrekað á undanförnum árum talið íslenska dómstóla hafa brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

„Um leið snertir það markmið í reynd alla landsmenn þar sem tjáningarfrelsi tryggir að sú þjóðfélagsumræða sem nauðsynleg er í lýðræðislegu samfélagi geti farið fram.“

Í frumvarpinu er einnig lagt til að fella niður 12. grein í lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið um að enginn megi óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki.

Hægt er að nálgast frumvarpið í heild sinni hér.