Trúnaðarbrestur um uppbyggingu Ríkarðshúss, safns undir muni myndhöggvarans Ríkarðs Jónssonar, olli því að gjafaloforð Ásdísar dóttur hans var dregið til baka. Samkvæmt stofnskrá sem undirrituð var við gjafagerninginn árið 2013 var ákveðið að safnið myndi rísa á grunni Vogalands 5 á Djúpavogi, en nýlega hefur verið kannað að flytja það í svokallað Faktorshús.

„Það fylgdi gjafaloforðinu kvöð um að byggja nýtt hús yfir safnið sem gæti rúmað alla listmuni Ríkarðs undir sama þaki og við unnum í mjög góðu samstarfi við systurnar Ásdísi og Ólöfu um það,“ segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps til ársins 2018, en hann harmar þá stöðu sem komin er upp í málinu. Bæði hvað varðar afturköllun loforðsins og rangar upplýsingar sem gefnar voru Fréttablaðinu í síðustu viku. Það er, að umfang gjafarinnar væri eitt einbýlishús í Reykjavík og kostnaðurinn næmi milljarði króna.

Hið rétta er að auk hússins voru í gjöfinni jörðin Miðdalur í Mosfellsbæ, fasteign á Akranesi, sumarhús í Hveragerði, stór flygill, málverk eftir Jóhannes Kjarval, Finn Jónsson og fleiri merka listamenn og svo nokkrir af stærstu og verðmætustu listmunum Ríkarðs.

Samkvæmt Andrési voru lauslegar hugmyndir á grunni þessa allt að 200 milljóna króna framlag til verkefnisins árið 2012. En verðlag hefur tekið breytingum frá þeim tíma. Þá hafi framlag Djúpavogshrepps verið húsgrunnur og lóð metin á 30 milljónir.

Byggingu safnsins átti að miða við þessa gjöf, sem yrði ekki að fullu ljós fyrr en eftir andlát systranna beggja en Ólöf lést árið 2017.

„Það er fráleitt að byggingin hafi átt að kosta milljarð króna. Fyrri stjórn og systurnar hefðu aldrei lagt upp í slíka vegferð,“ segir Andrés og bendir á að verkefnið hafi átt sér langan aðdraganda. Við tíu ára sýningarafmæli Ríkarðssafns á núverandi stað í Löngubúð, árið 2007, hafi systurnar tilkynnt formlega um gjöfina.

„Byggingu safnsins átti að sníða að því sem kæmi út úr sölu eignanna í gjöfinni ásamt öðrum framlögum, sem enginn gat eða getur fest fingur á fyrr en að þeim báðum systrum gengnum,“ segir Andrés.

Aðspurður um Faktorshúsið segir Andrés að það hús hafi komið til tals í upphafi ferlisins árið 2007 en hafi strax verið slegið út af borðinu. „Þær höfnuðu því báðar alfarið og sérstaklega Ólöf,“ segir Andrés. „Að þeirra mati var það algert lykilatriði að hægt væri að sjá Búlandstindinn, stolt svæðisins, frá safninu. Safnið þurfti líka að hafa gott svigrúm sem er ekki til staðar í Faktorshúsinu.“

Í bréfi sem lögmaður Ásdísar sendi Múlaþingi segir: „Óumdeilt er að sveitarfélagið hefur alfarið horfið frá þeim áformum að byggja nýtt hús utan um Ríkarðshús og ekki er nein uppbygging safnsins fyrirhuguð.“

Andrés segist ekki vita hvers vegna Faktorshúsið sé aftur komið inn í jöfnuna þrátt fyrir andstöðu systranna, sem valdið hafi mögulega þeim trúnaðarbresti sem upp er kominn, auk þess sem að landið í Miðdal hafi verið komið á sölu án samráðs.

„Ég ætla hins vegar ekki að fara að alhæfa eða gefa mér forsendur um hvers vegna þessi staða er komin upp, en svo mikið er víst að enga ósk á ég heitari en að menn nái að vinda ofan af þessu klúðri og staðið verði við þau fyrirheit sem getið er um í stofnskrá Ríkarðshúss,“ segir hann. „Eða þá að stjórn Ríkarðshúss breyti stofnskrá í sátt við þá sem stóðu að loforðinu. Satt best að segja þykir mér óendanlega dapurlegt að þurfa að stíga skref til baka inn í mál sem ég hafði skilið við. Ósannindi þau sem beindust að mér og Ríkarðssystrum sem komu fram í Fréttablaðinu fyrir skemmstu geta hins vegar ekki staðið án svara.

Virðing mín er meiri en svo fyrir dýrmætum menningararfi Djúpavogs, Ríkarði Jónssyni listamanni sem og dætrum hans.“