Í frönsku eru kynfæri kvenna karlkyns og kynfæri karla kvenkyns.

Njörður P. Njarðvík, prófessor emeritus í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, fjallar um kyn og málfar í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann tekur orðrétta tilvitnun í Laxdælu: „Höskuldur … gekk þangað sem lækur féll fyrir túnbrekkunni. Sá hann þar tvo menn og kenndi. Var þar Ólafur sonur hans og móðir hans.“

Njörður segir hreint málfræðilegt kyn enga kynlæga merkingu hafa og þurfi alls ekki að vera rökrétt.

Hann víkur að því að kyn séu með ólíkum hætti í tungumálum og franska hafi til að mynda aðeins tvö kyn á meðan íslenska og þýska hafi þrjú. Danska, norska og sænska bæta svo um betur og hafa kynin fjögur á meðan ekkert kyn er í finnsku.

Í íslensku er bíll karlkyns, kvenkyns í frönsku og hvorugkyns í þýsku. Ekkert af þessu getur talist rökrétt að mati Njarðar.

Sem fyrr segir eru kynfæri kvenna karlkyns í frönsku (le vagin) og karla kvenkyns (la verge).

Í niðurlagi greinar sinnar biður Njörður menn að hætta að „afskræma tungu okkar með bjánalegum tilburðum til einhvers konar rétttrúnaðartilburða í orðfæri og reyna þess í stað einfaldlega að vanda málfar sitt.“ Grein Njarðar má lesa hér.