„Það voru mis­tök að nefna sveitar­fé­lagið Norður­þing,“ segir Ágúst Sigurður Óskars­son, ráð­gjafi hjá VIRK, sem sendi inn erindi til sveitar­stjórnar um að nafninu verði breytt í Húsa­víkur­bæ.

Norður­þing varð til árið 2006 eftir sam­einingu Húsa­víkur­bæjar, Öxar­fjarðar­hrepps, Raufar­hafnar­hrepps og Keldu­nes­hrepps. Í kjöl­farið sendi sam­einingar­nefnd 14 til­lögur til Ör­nefna­nefndar en fékk að­eins 3 til baka sem kosið var um, Norður­þing, Norð­austur­byggð og Gljúfra­byggð. „Fólk fékk að­eins þrjá vonda kosti til að velja úr og nafnið Norður­þing hefur verið um­deilt allar götur síðan,“ segir Ágúst.

Í þessu ferli var fyrir fram á­kveðið að taka ekki upp neitt af fyrri nöfnum sveitar­fé­laganna. Ágúst bendir á að við aðrar sam­einingar hafi allur gangur verið á þessu. Til dæmis voru tekin upp ný nöfn í Ár­borg og Múla­þingi en í öðrum hafa stærri staðir haldið nafni sínu, svo sem Ísa­fjarðar­bær og Akur­eyrar­bær.

„Bæði Ís­lendingum og út­lendingum finnst nafnið Norður­þing ó­þjált og nota það lítið í dag­legu tali,“ segir Ágúst. Á undan­förnum árum hefur er­lendum ferða­mönnum fjölgað mjög í sveitar­fé­laginu. Þá segir hann nafninu oft ruglað við Norður-Þing­eyjar­sýslu sem að­eins hluti sveitar­fé­lagsins er innan.

Að­spurður um hvort nafna­breyting kæmi ekki illa við íbúa Kópa­skers, Raufar­hafnar og dreif­býlisins segir Ágúst að það þyrfti ekki að vera svo. Málið snúist um heildar­hags­muni svæðisins. Til dæmis þá miklu kynningu sem sveitar­fé­lagið hefur fengið vegna kvik­myndarinnar um Euro­vision og lagsins Husa­vik sem til­nefnt hefur verið til Óskars­verð­launa. Það hreyfði við honum að senda erindið inn.

Bendir Ágúst á að bæði Ís­lendingum og út­lendingum finnist auð­velt að nota það nafn. „Húsa­vík er verð­mætt vöru­merki,“ segir hann. „Það er ekkert að því að segjast búa á Kópa­skeri í Húsa­víkur­bæ.“

Þá sé Húsa­vík elsta ör­nefni landsins, nefnt af sænska víkingnum Garðari Svavars­syni sem hafði þar vetur­setu og byggði sér hús. Hefur Ágúst á­hyggjur af því að ör­nefnið þurrkist smám saman út í ljósi þess að bærinn sjálfur er í auknum mæli skráður sem Norður­þing á kortum Goog­le og annarra tækni­risa.

Erindið var ný­lega tekið fyrir í byggðar­ráði Norður­þings og því hafnað. Kom þó fram að ef til frekari sam­eininga kemur við ná­granna­sveitar­fé­lög yrði nafnið mögu­lega endur­skoðað.

„Ég missi ekki svefn yfir þessu,“ segir Ágúst að­spurður um hvort hann sé von­góður um að til­lagan nái fram að ganga síðar. „Ég tel hags­munum sveitar­fé­lagsins þó borgið með því að skoða þessa til­lögu vel.“