Varaþingmaður Pírata vill afnema 400 þúsund króna lágmark af bótum vegna ofbeldisbrota sem ríkið tryggir þolendum. Lágmarkið var hækkað mikið eftir bankahrunið en þolendum reynist oft erfitt að innheimta bætur, tryggi ríkið þær ekki.

„Þegar þolandanum eru dæmdar bætur sem hann þarf að innheimta sjálfur er hann skilinn eftir með hálfklárað mál. Það væri miklu eðlilegra að ríkið kláraði málið gagnvart þolandanum,“ segir Indriði Ingi Stefánsson, varaþingmaður Pírata.

Í stefnumótunarstarfi í grasrót flokksins hafi hann heyrt það frá fólki að afar erfitt sé að fá bætur greiddar gangið ríkið ekki inn á milli, eins og gert er í meðlagskerfinu. „Mér skilst að ef ríkið tryggir ekki bæturnar, skili þær sér sjaldnast,“ segir hann.

900 bætur dæmdar á 10 árum

Í svari við fyrirspurn til dómsmálaráðherra kemur fram að bætur hefðu verið dæmdar í 900 ofbeldismálum undanfarin áratug. Ekki lægi þó fyrir hversu stór hluti væri undir lágmarkinu. Í menginu eru allar tegundir ofbeldisbrota, líkamlegra, kynferðislegra og andlegra.

Lágmarkið var hækkað úr 100 þúsundum í 400 þúsund árið 2009 með frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, til þess að draga úr ríkisútgjöldum. Ríkissjóður stóð þá illa og átti breytingin að spara 60 milljónir á ári, en meirihluti greiddra bóta var þá á bilinu 100 til 400 þúsund krónur. Fjárhæðin hefur staðið óhögguð síðan.

Halldór Þormar Halldórsson, ritari bótanefndar, segir að lágmarkið eigi ekki aðeins við um dæmdar bætur heldur einnig þær sem koma beint inn á borð nefndarinnar. Þolendur geta fengið greiddar bætur frá ríkinu þó að gerandi sé til dæmis látinn eða óþekktur.

Lögmenn vita að greiðslurnar skila sér ekki

Alls rati um 470 til 500 mál árlega inn á borð bótanefndarinnar en fá undir 400 þúsundum því lögmenn viti að það fáist ekki greitt. Málin sem séu undir þessu viðmiði eru til dæmis vægari kynferðisbrotamál eins og myndbirtingarmál sem mikið eru í deiglunni.

Halldór segir kerfið bjagað hvað varðar þessar lægstu kröfur því málskostnaður er reiknaður inn í höfuðstólinn. Sé því munur á hvort þolendur séu með réttargæslumenn eða eigin lögmenn.

„Ef brotaþoli fær 300 þúsund krónur í bætur en var með réttargæslumann fær hann ekkert vegna þess að réttargæslan er greidd úr ríkissjóði eftir sérstökum leiðum,“ segir Halldór. „Ef brotaþoli er með lögmann, sem fær kannski 300 þúsund, fær hann greitt því að þá er höfuðstóllinn orðinn 600 þúsund.“

Þolendum er útvegaður réttargæslumaður í mörgum kynferðisbrotamálum, heimilisofbeldismálum og alltaf ef þolandi er undir 18 ára.

Indriði segir miklu máli skipta að þolendur ofbeldis þurfi ekki að hafa frekari afskipti af gerendum sínum eftir dóm. Nógu mörg nálaraugu hafi verið þrædd þegar mál er rannsakað, fer fyrir dóm og er dæmt. Það er þó aðeins brot af heildarfjölda ofbeldismála. Segist hann ætla að beita sér fyrir afnámi lágmarksins, hvort sem er með frumvarpi eða þingsályktunartillögu, næst þegar hann dettur inn á þing.