Sanna Magda­lena Mörtu­dóttir, borgar­full­trúi Sósíal­ista­flokksins, segist ætla að fylgja eftir til­lögu sinni um að Reykja­víkur­borg beiti sér gegn spila­kössum. Í til­lögunni felst að Reykja­víkur­borg sam­þykki að gera allt sem í hennar valdi standi til að engir spila­kassar verði reknir í borgar­landinu.

Lagt er til að borgin nýti allar þær að­ferðir sem hægt er til að koma spila­kössunum úr borginni og þrýsti á ríkið að koma á nauð­syn­legum breytingum til að stöðva rekstur þeirra.

Til­lagan var lögð fyrir borgar­stjórn í upp­hafi síðasta mánaðar en var þá frestað. Hún var aftur lögð fram á fundi borgar­stjórnar þann 15. mars þar sem sam­þykkt var að vísa til­lögunni til með­ferðar borgar­ráðs.

Sanna segist á­nægð með að til­lögunni hafi verið vísað til borgar­ráðs en hún hefði þó helst kosið að til­lagan yrði sam­þykkt í borgar­stjórn. Þá segir hún það vel ger­legt að borgin verði spila­kassa­laus.

„Það er alveg hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það eru margar leiðir og þó að ekki verði að lög­gjöf þess efnis þá getum við vel sagt sem sveitar­fé­lag að þetta sé eitt­hvað sem við viljum ekki,“ segir Sanna.

„Ég bara bíð spennt eftir niður­stöðu borgar­ráðs og sé hvað verður en ég mun halda þeim við efnið,“ segir Sanna.

Alma Haf­steins, for­maður Sam­taka á­huga­fólks um spila­fíkn (SÁS), segir mikil­vægt að allir séu með­vitaðir um skað­semi spila­kassa og að á bak við þær upp­hæðir sem safnist með spila­kössum sé að mestu leyti fólk sem ekki vilji spila í kössunum heldur sé haldið spila­fíkn og geti ekki hætt.

„Hvernig er annað hægt en að taka af­stöðu um að vera með spila­kassa­laust sveitar­fé­lag ef þeir sem hafa valdið til að á­kveða það eru ekki til­búnir til að fórna sínum ást­vinum í þessa svo­kölluð fjár­öflun,“ spyr Alma.

„Það gera allir sér grein fyrir að það þarf að fórna ein­hverjum og af hverju erum við til­búin að fórna öðrum en ekki okkar ást­vinum?“ bætir hún við.

Alma segir Reykja­víkur­borg til að mynda vel geta litið til Garða­bæjar sem sé spila­kassa­laust sveitar­fé­lag. Í Reykja­vík séu um 500 spila­kassar, það sé mikill meiri­hluti spila­kassa landsins. Mikill fjöldi þeirra sé í grennd við leik-, grunn- og mennta­skóla á­samt tóm­stunda-, frí­stunda- og í­þrótta­starfi. „Það blasir við að spila­kassar er nú ekki mjög fjöl­skyldu­vænir og passa alls ekki við heil­brigt og fjöl­skyldu­vænt sam­fé­lag,“ segir Alma.

Þá segir Alma niður­stöður starfs­hóps Há­skóla Ís­lands (HÍ) taka af allan vafa um skað­semi spila­kassa og vísar þar til skýrslu starfs­hóps há­skólans um á­lita­efni tengd tekju­öflun Happ­drættis Há­skóla Ís­lands (HHÍ) sem gefin var út á síðasta ári.

Í skýrslunni segir meðal annars að „á­mælis­vert væri að beita ekki öllum til­tækum ráðum til þess að tryggja á­byrga spilun [í spila­kössum] og grípa tafar­laust til slíkra að­gerða.“

Alma segir að þrátt fyrir niður­stöðu skýrslunnar hafi ekkert verið að­hafst. „Ég er ansi hrædd um að ef ást­vinur ein­hverra stjórn­enda HÍ eða HHÍ ætti í hlut værum búin að sjá að­gerðir en svo er því miður ekki,“ segir hún.