Karl Gauti Hjaltason, frambjóðandi Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi sem datt út sem jöfnunarþingmaður við endurtalningu í Norðvesturkjördæmi, segir í samtali við Fréttablaðið að hann telji það lang best að fá lögregluna til að upplýsa um atvik í málinu. Hann hefur þegar sent kæru til lögreglu og óskar eftir lögreglurannsókn á því hvað átti sér stað. Vísar hann til þess að það þurfi að rannsaka hvernig meðferð gagna var og hvað varð til þess að ákveðið var að telja aftur.
„Þetta er að mínu mati svona grundvallaratriði að þú gefur ekki út lokatölur nema þú sért þess fullviss að umboðsmenn og allir í kjörstjórninni séu orðnir sáttir við talninguna, og ef þú hefur minnsta grun um að eitthvað gæti verið mistalið eða villa einhvers staðar þá bíður þú með að gefa út lokatölur,“ segir Karl í samtali við Fréttablaðið.
Kveðst hann vilja hlutlausa rannsókn á því hvað nákvæmlega átti sér stað. „Ég kann ekki við það, þegar lýðræðið er í húfi, að við þurfum að sæta því að hlusta á einhverjar yfirlýsingar hina og þessara sem þarna voru, eða komu að þessu. Ég vil fá þetta bara hlutlaust á borðið hvað gerðist,“ segir Karl enn fremur og vísaði þar til lögreglurannsóknar.
Vilja ekki gefa upp hvort rannsókn sé hafin
Lögreglan á Vesturlandi hefur móttekið kæru Karls Gauta vegna meintra brota á kosningalögum er varðar endurtalningu atkvæða og meðferð á þeim í Norðvesturkjördæmi.
Þetta staðfestir Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi, í samtali við Fréttablaðið en hann vildi ekki gefa upp neinar upplýsingar um hvort málið sé farið í ferli hjá þeim. „Ég get staðfest að þetta er komið fram, það er búið að móttaka þetta hjá lögreglu en að öðru leiti get ég ekki tjáð mig um þetta,“ segir Gunnar.
En það er væntanlega tímapressa í þessu máli og ljóst að það þurfi að vinna þetta hratt?
„Ég get ekki tjáð mig meira um þetta. Ég get staðfest að þetta er komið fram og við erum búin að móttaka þetta en get ekkert tjáð mig meira, ekki frekar en um önnur mál sem eru hjá okkur,“ segir Gunnar enn fremur aðspurður um málið og vildi því ekki svara hvort rannsókn væri hafin hjá lögreglunni.
Bunkarnir handónýtir ef einhver gæti hafa komist inn
Hann segir þegar liggja fyrir að umbúnaður kjörgagna eftir að starfsfólk fór af staðnum hafi ekki verið með þeim hætti sem segir til um í lögum þar sem kjörgögn voru ekki innsigluð.
„Þetta er augljóst brot á kosningalögum þannig ég hef alveg rök fyrir því að þetta verði sent til lögreglu,“ segir Karl en tekur þó fram að einnig séu önnur dæmi um að kosningalögum hafi ekki verið fylgt, til að mynda hvernig hægt var að komast inn um dyr eða glugga þar sem kjörgögn voru geymd.
„Ef það er minnsti möguleiki á því að einhver hefði geta farið þarna inn að þá eru þetta handónýtir bunkar, allir. Það skiptir engu máli hvað þú telur þá oft,“ segir Karl Gauti og bætir við að í því tilfelli eigi lokatölur að standa. „Það er það sem ég er að benda á, meðferðin var með þeim hætti að ég tel að lokatölur eigi að standa.“