Ingólfur Már Ingólfsson, íbúi í Múlahverfi Reykjavíkur, leitar að eiganda kattar sem hefur valdið skemmdum á bílnum hans. Hann segir köttinn eiga það til að liggja ofan á bílnum, renna sér niður hann og nota klærnar í leiðinni og rispa þar með bílinn.

„Auglýsi eftir eiganda kattar sem heldur sig mikið í Fellsmúla (ofan Síðumúla) og Háaleiti. Hann er þéttur gulur á lit. Byrjaði á að þagga niður í fuglunum í vor þar sem hann drap ungana. Sá hann stöðugt að veiða. Nú leggur hann í vana sinn að liggja ofan á bílunum og rennir sér svo niður á klónum svo það eru rispur á lakkinu. Við þetta er ekki búandi og hér þarf að gera ráðstafanir strax.“ skrifaði Ingólfur í Facebook hóp ætluðum íbúum í hverfinu.

Fréttablaðið/Aðsend

Í samtali við Fréttablaðið tekur hann fram að hann hafi ekkert á móti köttum. „Ég hata ekki ketti. Ég hef sjálfur átt gæludýr,“ Hann segist einungis ætlast til þess að eigandinn taki ábyrgð á gæludýrinu sínu, en hans upplifun er sú að eigandi kattarins virðist ekki sinna honum nægilega vel.

„Ég vil bara að hann geri viðeigandi ráðstafanir,“ segir hann og liggur til að mynda til að eigandi kattarins snyrti á honum klærnar og hugsi vel um hann.

Ingólfur vísar í Samþykkt Reykjavíkurborgar um kattahald, og segir að það sem þar stendur passi við sínar kröfur, en þar segir: „Ketti skal halda þannig að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða forráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.“

Fréttablaðið/Aðsend

„Þitt vandamál, ekki kattarins“

Ingólfur furðar sig þó á viðbrögðunum sem færsla hans hefur fengið á Facebook-hópnum. „Hættu þessu bölvuðu væli,“ skrifar einn meðlimur hópsins við færslu Ingólfs. Annar segir: „Haters gonna hate. Kettirs gonna kett. Það er líklega ekki hægt að gera neitt í svona málum. Þarna er bara köttur að gera það sem kettir gera.“ Og sá þriðji skrifar: „Við deilum utandyrunum með allskonar annarskonar lífverum, þetta er þitt vandamál, ekki kattarins“

„Það er aldrei hægt að ræða svona mál,“ segir Ingólfur sem ítrekar að hann hafi ekkert á móti sjálfum kettinum, heldur vilji hann ná tali af eigandanum.

„Myndi einhver vilja þessum ketti eitthvað, þá væri búið að taka hann upp í bíl og keyra eitthvað. Það er bara ekki þannig. Fólk er ekki þannig.“ Ingólfur tekur þó fram að ef engin gefi sig fram, og ef ekkert útlit sé fyrir því að eigandinn sé að hugsa um köttinn, verði kattavinafélaginu, eða öðrum viðeigandi aðilum, gert viðvart.

Fréttablaðið/Aðsend