Sól­veig Anna Jóns­dóttir ritar Katrínu Jakobs­dóttur bréf og óskar þess að hún deili með sér og fé­lögum sínum í Eflingu þeirri ráð­gjöf sem Katrín segist hafa fengið frá sér­fræðingum sínum um að miðlunar­til­laga ríkis­sátta­semjara sé lög­leg.

Sól­veig Anna birtir bréfið sem dag­sett er í gær á Face­book síðu sinni nú í morgun. Vísar Sól­veig til orða Katrínar í fjöl­miðlum í gær þar sem hún sagði um til­lögu ríkis­sátta­semjara:

„Ég er ekki til þess fallin að meta nál­væm­lega lög­mæti hennar en eins og málið horfir fyrir mér og þeim sér­fæðingum sem ég hef ráð­fært mig við þá stenst hún skoðun.“

Segist Sól­veig Anna hafa á­kveðið að rita Katrínu bréf eftir að hafa hlustað á þetta. Það sé hvorki henni né fé­lögum hennar í Eflingu sér­stakt kapps­mál að standa í „öllum þessum kæru­málum,“ en hins­vegar muni Sól­veig og fé­lagar í Eflingu svara fyrir sig þegar ráðist sé að þeirra lög­vörðu og lýð­ræðis­legu réttindum.

„Ég óska jafn­framt eftir því að for­sætis­ráð­herra deili með mér og fé­lögum mínum þeirri ráð­gjöf sem hún segist hafa fengið frá sér­fræðingum um að miðlunar­til­laga ríkis­sátta­semjara sé lög­leg,“ skrifar Sól­veig Anna.

Hún segist vona að Katrín skilji mikil­vægi þess að lág­launa­fólk, sel eggi allt sitt undir í bar­áttunni fyrir betra lífi, sé ekki sagt af for­sætis­ráð­herra að bar­átta þeirra sé ó­lög­leg, að minnsta kosti ef það reynist ekki rétt eða byggi á traustri eða vandaðri ráð­gjöf.

„Að lokum segi ég að ég og þeir sér­fræðingar sem ég hef ráð­fært mig við séum til­búin til fundar við for­sætis­ráð­herra hve­nær sem er til að upp­lýsa um málið og til að tryggja að al­menningur fái réttar upp­lýsingar um það,“ skrifar Sól­veig Anna og lætur þess getið að Katrín hafi ekki svarað bréfi sínu enn sem komið er.