Sólveig Anna Jónsdóttir ritar Katrínu Jakobsdóttur bréf og óskar þess að hún deili með sér og félögum sínum í Eflingu þeirri ráðgjöf sem Katrín segist hafa fengið frá sérfræðingum sínum um að miðlunartillaga ríkissáttasemjara sé lögleg.
Sólveig Anna birtir bréfið sem dagsett er í gær á Facebook síðu sinni nú í morgun. Vísar Sólveig til orða Katrínar í fjölmiðlum í gær þar sem hún sagði um tillögu ríkissáttasemjara:
„Ég er ekki til þess fallin að meta nálvæmlega lögmæti hennar en eins og málið horfir fyrir mér og þeim sérfæðingum sem ég hef ráðfært mig við þá stenst hún skoðun.“
Segist Sólveig Anna hafa ákveðið að rita Katrínu bréf eftir að hafa hlustað á þetta. Það sé hvorki henni né félögum hennar í Eflingu sérstakt kappsmál að standa í „öllum þessum kærumálum,“ en hinsvegar muni Sólveig og félagar í Eflingu svara fyrir sig þegar ráðist sé að þeirra lögvörðu og lýðræðislegu réttindum.
„Ég óska jafnframt eftir því að forsætisráðherra deili með mér og félögum mínum þeirri ráðgjöf sem hún segist hafa fengið frá sérfræðingum um að miðlunartillaga ríkissáttasemjara sé lögleg,“ skrifar Sólveig Anna.
Hún segist vona að Katrín skilji mikilvægi þess að láglaunafólk, sel eggi allt sitt undir í baráttunni fyrir betra lífi, sé ekki sagt af forsætisráðherra að barátta þeirra sé ólögleg, að minnsta kosti ef það reynist ekki rétt eða byggi á traustri eða vandaðri ráðgjöf.
„Að lokum segi ég að ég og þeir sérfræðingar sem ég hef ráðfært mig við séum tilbúin til fundar við forsætisráðherra hvenær sem er til að upplýsa um málið og til að tryggja að almenningur fái réttar upplýsingar um það,“ skrifar Sólveig Anna og lætur þess getið að Katrín hafi ekki svarað bréfi sínu enn sem komið er.