Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, gefur lítið fyrir yfir­lýsingu Sam­taka at­vinnu­lífsins frá því í gær þar sem fram kemur að sam­tökin telji for­sendur Lífs­kjara­samningsins svo­kallaða brostnar. Þetta kemur fram í að­sendri grein Sól­veigar á vef Frétta­blaðsins nú í morgun.

Líkt og greint var frá í Frétta­blaðinu í dag kallar Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri SA, eftir sveigjan­leika af hálfu verka­lýðs­hreyfingar, vegna þess sem hann segir gjör­breytta mynd sem blasi við ís­lensku sam­fé­lagi vegna kórónu­kreppunnar.

Sam­tökin telja for­sendur Lífs­kjara­samningsins brostnar og minna á að heimild sé til að segja upp kjara­samningum á al­mennum vinnu­markaði um mánaða­mót komi verka­lýðs­hreyfingin ekki til móts við at­vinnu­lífið.

Segir for­sendur SA falskar

Sól­veig segir í grein sinni að engin af þeim megin­á­stæðum sem SA telji upp í yfir­lýsingu sinni geti talist for­sendu­brestur í skilningi samningsins. Þvert á móti sé til tæmandi listi yfir for­sendur samningsins.

Segir Sól­veig að þau at­riði séu kaup­máttar­aukning, vaxta­lækkun og efndir á til­teknum lof­orðum stjórn­valda. Þær for­sendur hafi staðist. For­sendu­bresturinn sem SA ræði í yfir­lýsingu sinni sé þeim ó­við­komandi og veiti þeim ekki heimild til upp­sagnar.

„Í til­raun til að klóra yfir þennan sann­leika málsins hengja SA sig, í smáu letri aftast í yfir­lýsingu sinni, í það tækni­at­riði að „til­tekin tíma­sett vil­yrði“ úr lof­orða­pakka stjórn­valda hafi ekki verið efnd,“ skrifar Sól­veig.

Þar eigi sam­tökin við lof­orð um tak­mörkun á 40 ára verð­tryggðum hús­næðis­lánum. Segir hún að um sé að ræða at­riði sem sjtórn­völd lofuðu að beiðni verka­lýðs­hreyfingarinnar, ekki at­vinnu­rek­enda og því sé það verka­lýðs­hreyfingarinnar að skera úr um varðandi meintan for­sendu­brest, ekki at­vinnu­rek­enda. Þá liggi fyrir að frum­varp yfir­valda er í smíðum til að full­nægja um­ræddu lof­orði.

„Raun­veru­legar á­stæður þess að Sam­tök at­vinnu­lífsins sækjast nú eftir að snúa sig út úr gildandi kjara­samningi koma eigin­legum, um­sömdum for­sendum samningsins ekkert við. Sam­tök at­vinnu­lífsins stíga þannig fram til upp­sagnar á gerðum kjara­samningum með klækja­brögð, ó­heilindi og tæki­færis­mennsku að vopni. Ég lýsi miklum efa­semdum um að upp­sögn kjara­samninga á þeim fölsku for­sendum sem mál­flutningur SA byggir á fái staðist. Ég tel rétt að skoða að slíkri upp­sögn, komi til hennar, verði vísað til Fé­lags­dóms þar sem skorið verði úr um lög­mæti hennar.“

Segir for­svars­menn SA vind­hana án við­skipta­vits

Þá segir Sól­veig að Hall­dór, með dyggum stuðningi Bjarna Bene­dikts­sonar, fjár­mála­ráð­herra, fari með villandi mál­flutning um tengsl kjara­samninga og launa­kostnaði.

„Ég mót­mæli því að látið sé sem launa­kostnaður fyrir­tækja sé skil­greindur af kjörum hinna lægst launuðu og ég for­dæmi að Sam­tök at­vinnu­lífsins ætli sér að velta enn frekari byrðum af yfir­standandi kreppu í ferða­þjónustunni yfir á lág­launa­fólk í öðrum geirum þar sem engin kreppa er.“

Hún segir að nú­gildandi kjara­samningar hafi verið gerður til ó­venju langs tíma, sér­stak­lega að ósk at­vinnu­rek­enda. Hall­dór hafi boðað Lífs­kjara­samninginn líkt og nokkurs konar trúar­brögð.

„Nú þegar hóf­legar launa­hækkanir sem skila lág­launa­fólki mestum á­bata henta ekki lengur hús­bændum fram­kvæmda­stjórans í stór­fyrir­tækjum ferða­þjónustunnar hefur hann skyndi­lega gengið af trúnni,“ skrifar Sól­veig.

„Kannski er ekki við öðru að búast af lær­lingi Boga Nils Boga­sonar, for­stjórans sem á heiðurinn af milljarða­tapi Icelandair á fram­virkum elds­neytis­samningum. Svo virðist sem ó­menntað lág­launa­fólk sé sleipara í samninga­gerð en lukku­prinsana úr SA-Icelandair klíkunni grunaði, en í sönnum anda dramb­semi og tæki­færis­mennsku leggja þeir nú allt í sölurnar til að koma í veg fyrir að lág­launa­fólk njóti nokkurs á­vaxtar af því.“