„Ég vil láta skoða upptökur af lögunum en ekki bara nótnablöð. Djössuð útgáfa af afmælissöngnum gæti litið allt öðruvísi út á blaði en upprunalega lagið en ef kviðdómur heyrði upptökurnar lægi ljóst fyrir að um væri að ræða afmælissönginn,“ sagði Michael Machat, lögmaður Jóhanns Helgasonar, fyrir áfrýjunardómstóli í Pasadena í Los Angelessýslu, í gær.

Jóhann leitaði til áfrýjunardómstólsins eftir að dómstóll í Los Angeles vísað frá máli sem hann höfðaði vegna meints stuldar á lagi hans Söknuði með laginu You Raise Me Up.

Tónlistarfyrirtækið áfrýjaði á móti þeirri ákvörðun dómstólsins að verða ekki við kröfu þeirra um að Jóhann yrði gert að greiða lögfræðikostnað þeirra upp á 323 þúsund dollara, jafnvirði um 43 milljóna króna á gengi dagsins.

Ekki kom fram í dómsal í gær hvenær búast megi við ákvörðun áfrýjunardómstólsins.