Kona hefur stigið fram og sakað Jeffrey Epstein um að hafa kynferðislega misnotað sig þegar hún var fimmtán ára gömul. Hún vill að Andrew Bretaprins leysi frá skjóðunni um sinn gamla vin, að því er fram kemur á vef BBC.
Konan vill ekki láta nafns síns getið, heldur stígur hún fram undir nafninu „Jane Doe 15“ og er hún ein fjölda kvenna sem sakað hefur milljarðarmæringinn sáluga um að hafa brotið á sér kynferðislega. Jane Doe 15 er nú 31 árs gömul og ræddi við blaðamenn á blaðamannafundi í Los Angels í gær.
Hún segist hafa hitt ritara Epstein í skólaferðalagi til New York árið 2004. Ritarinn hafi sagt henni að Epstein hafi haft áhuga á því að aðstoða konur úr efnaminni fjölskyldum. Henni hafi verið flogið í einkaþotu hans á búgarð hans í Nýju-Mexíkó ásamt nokkrum öðrum ungum stelpum. Hann hafi gefið henni nudd og svo brotið á henni.
Epstein, 66 ára gamall, hengdi sig í fangelsi í ágúst síðastliðnum, að því er segir í umfjöllun BBC. Hann var sakaður um að vera viðriðinn viðamikið mansalsmál og að hafa brotið kynferðislega gegn barnungum stúlkum, allt að fjórtán ára gömlum. Hann neitaði ávallt sök.
Jane Doe 15 sakaði Andrew Bretaprins ekki um brot gegn sér en kallaði hins vegar eftir því að hann leysti úr skjóðunni um sinn gamla vin. Andrew var á dögunum í mislukkuðu viðtali þar sem hann sór af sér ásakanir Virginu Robert Giuffre, sem sagði hann hafa brotið á sér í teiti hjá milljarðarmæringnum.
„Andrew prins og allir aðrir sem voru nánir Epstein, ættu að stíga fram og bera vitni undir eiðstaf um þær upplýsingar sem þeir kunna að hafa,“ sagði Jane Doe 15 meðal annars á blaðamannafundinum.