Kona hefur stigið fram og sakað Jef­frey Ep­stein um að hafa kyn­ferðis­lega mis­notað sig þegar hún var fimm­tán ára gömul. Hún vill að Andrew Breta­prins leysi frá skjóðunni um sinn gamla vin, að því er fram kemur á vef BBC.

Konan vill ekki láta nafns síns getið, heldur stígur hún fram undir nafninu „Jane Doe 15“ og er hún ein fjölda kvenna sem sakað hefur milljarðar­mæringinn sáluga um að hafa brotið á sér kyn­ferðis­lega. Jane Doe 15 er nú 31 árs gömul og ræddi við blaða­menn á blaða­manna­fundi í Los Angels í gær.

Hún segist hafa hitt ritara Ep­stein í skóla­ferða­lagi til New York árið 2004. Ritarinn hafi sagt henni að Ep­stein hafi haft á­huga á því að að­stoða konur úr efna­minni fjöl­skyldum. Henni hafi verið flogið í einka­þotu hans á bú­garð hans í Nýju-Mexíkó á­samt nokkrum öðrum ungum stelpum. Hann hafi gefið henni nudd og svo brotið á henni.

Ep­stein, 66 ára gamall, hengdi sig í fangelsi í ágúst síðast­liðnum, að því er segir í um­fjöllun BBC. Hann var sakaður um að vera við­riðinn viða­mikið mansals­mál og að hafa brotið kyn­ferðis­lega gegn barn­ungum stúlkum, allt að fjór­tán ára gömlum. Hann neitaði á­vallt sök.

Jane Doe 15 sakaði Andrew Breta­prins ekki um brot gegn sér en kallaði hins vegar eftir því að hann leysti úr skjóðunni um sinn gamla vin. Andrew var á dögunum í mis­lukkuðu við­tali þar sem hann sór af sér á­sakanir Virginu Robert Giuf­fre, sem sagði hann hafa brotið á sér í teiti hjá milljarðar­mæringnum.

„Andrew prins og allir aðrir sem voru nánir Ep­stein, ættu að stíga fram og bera vitni undir eið­staf um þær upp­lýsingar sem þeir kunna að hafa,“ sagði Jane Doe 15 meðal annars á blaða­manna­fundinum.