Árni Arnþórsson, fyrrum aðstoðarrektor American University of Afghanistan í Kabúl, vonast til þess að hetja frá Afganistan komist undan ofsóknum Talíbana og til lands sem metur hana að verðleika.

Í pistli sem hann birti í Fréttablaðinu í dag sagði Árni sögu „Abduls,“ sem rétt slapp með líf sitt á laugardaginn þegar eftirlitsmenn Talíbana bönkuðu upp á heima hjá honum. Höfðu þá nýlega verið gerðar tvær skot- sprengjuárásir í grenndinni sem Árni segir að hafi verið af völdum íslamska ríkisins.

Árni lýsir Abdul (sem er dulnefni) sem tölvunördi og segir frá því að síðan að Kabúl féll í hendur Talibana hafi hann margoft lagt á sig hættuferðir til vegabréfsskrifstofunnar í Kabúl. Þar hjálpi hann nemendum AUAF að fá eða endurnýja vegabréf sem hjálpi þeim að flýja til Pakistans. „Þetta skapar alltaf hættu þar sem Talibanar handtaka alla sem reyna þetta.“

„Abdul hafði sent mér og yfirmanni öryggismála hjá háskóla mínum myndbönd af þessum árásum, til að fá ráð um hvað hann ætti að gera,“ skrifar Árni. „Þar sást og heyrðist hvað var í gangi, sprengjur og byssuskot. Allt þetta hafði gert börn hans skelfingu lostin, og Abdul átti erfitt með að halda í sinn innri styrkleika til að brotna ekki niður.“

Talíbanarnir heimtuðu að fá að skoða síma Abduls og sáu þar myndböndin af árásunum. Þeir beindu vopnum sínum að Abdul og skipuðu honum á hnén en til allrar hamingju þyrmdu þeir lífi hans um sinn. Þeir fundu ekkert sem tengdi Abdul við árásirnar eða við bandaríska háskólann og höfðu sig því á brott um miðnætti en skildu eftir verði.

„Ég hef sagt Abdul að athuga hvort hann geti fengið tímabundið landvistarleyfi í Pakistan. Ég er hræddur um að hann hafi tekið of miklar áhættur, að það sé nú fylgst með honum. Meira en hundrað nemendur hafa notið hans hjálpar. Hann hefur gert þetta af því að ég bað hann um það. Ég get ekki hugsað mér að biðja hann um að gera meira sem gæti sett hann í hættu. Ef hann kemst til Pakistan með fjölskylduna þá þarf ég að finna út hvernig við getum komið honum eitthvert annað, til lands sem hefur not fyrir mann eins og hann. Hann er hetja.“