Jacindad Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur kallað eftir því að heimsbyggðin skeri upp herör gegn rasisma og uppræti hægrihyggju (e. right-wing ideology. Fimmtíu voru drepnir í landinu síðastliðinn föstudag, þegar byssumaður gekk inn í tvær moskur og skaut alla sem á vegi hans urðu. 28 ára gamall Ástrali hefur verið handtekinn og ákærður fyrir morðin.

Í viðtali við BBC hafnar Ardern því að aukinn fjöldi innflytjenda sé sem olía á eld rasisma. Spurð um hægrisinnaða þjóðernisstefnu segir Ardern: „Þetta var ástralskur ríkisborgari en það þýðir ekki að meirihluta Nýsjálendinga væri ekki gróflega misboðið yfir hugmyndafræði hans.“ Hún segir að það sé samfélagsleg ábyrgð að úthýsa þessum boðskap hvar sem hann þrífst og sjá til þess að skapa aldrei umhverfi þar sem þessi sjónarmið geta kraumað. Hún segir að þetta gildi um heiminn allan.

„Það sem Nýja-Sjáland hefur nú upplifað voru ofbeldisverk framin af einhverjum sem lærði hugmyndafræði sína einhvers staðar annars staðar. Til að tryggja öryggi okkar, hvar á jörðinni sem við erum, verðum við að hætta að hugsa þetta út frá landamærum.“

Ardern segir að Nýja-Sjáland sé staður þar sem fólk sé boðið velkomið, en stjórnvöld hafa verið dugleg að taka við flóttamönnum. Hún segist hafna því alfarið að með því séu stjórnvöld að skapa umhverfi þar sem þessi hugmyndafræði fáist þrífist. Hún rökstuddi líka það viðhorf sitt að nefna árásarmanninn aldrei á nafn. Eitt af markmiðum mannsins hafi verið að skapa sér nafn og að það sé markmið í sjálfu sér að neita honum um það.

Hún segir að það sé hlutverk sitt að allir íbúar, sama hvaða trúarbrögð eða af hvaða kynþætti þeir eru, upplifi að þeir væru öryggir í Nýja-Sjálandi. Þetta ætti ekki síst við um konur og börn.