Ríkis­lög­reglu­stjóri hefur lýst yfir hættu­á­standi á landa­mærum og sam­skipta­stjóri em­bættisins segir að eitt af því sem að við­bragðs­aðilar verði að ræða sé hvort að það þurfi að opna fjölda­hjálpar­stöð fyrir flótta­fólk vegna skorts á hús­næði. Spurður hvort að slík stöð yrði ein­hvers konar flótta­manna­búðir segir hann það vera eitt af því sem þarf að ræða.

Gylfi Þór Þor­steins­son , að­gerðar­stjóri yfir mót­töku Úkraínu­manna, segir að það eigi að gera allt til þess að reyna að koma í veg fyrir að hér á Ís­landi verði búnar til flótta­manna­búðir til að bregðast við hús­næðis­vanda meðal um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd.

Nánast allt fullt

Greint var frá því í morgun að við­búnaðar­stig á landa­mærum hefði verið hækkað á neyðar­stig vegna þess að það lægi fyrir að öll bú­setu­úr­ræði væru að fyllast og að í sam­ræmi við það verði það tryggt að hægt verði að kalla saman alla við­bragðs­aðila ef það kemur til þess að það þurfi að opna fjölda­hjálpar­stöð til að veita fólki tíma­bundið skjól.

Gunnar Hörður Garðars­son, sam­skipta­stjóri ríkis­lög­reglu­stjóra, sagði að eitt af því sem að við­bragðs­aðilar myndu þurfa að svara, verði þeir kallaðir saman, sé hvar slík fjölda­hjálpar­stöð verði sett upp og hvers konar þjónusta yrði veitt þar.

Verða þetta ein­hvers konar flótta­manna­búðir?

„Við höfum ekki opnað úr­ræði sem slíkt áður og þetta er liður í því að svara þeirri spurningu,“ segir Gunnar Hörður í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að með því að virkja við­búnaðar­stig á hættu­stig sé mögu­legt að kalla alla við­bragðs­aðila saman til að skoða málið saman. Það eru þá full­trúar lög­reglu, al­manna­varna, Út­lendinga­stofnunar, heil­brigðis­yfir­valda, Vinnu­mála­stofnunar, Rauða krossins og annarra sem koma að þessum mála­flokki.

„Þetta er fyrsti liður í því að svara því hvað gerist þegar hús­næðið klárast,“ segir Gunnar Hörður.

Hvað þýðir það að hús­næðið sé nánast full­nýtt, hvað er til?

„Það er mjög lítið til. Þetta er hættu­á­stand og við erum í þessum að­gerðum núna að finna bráða­birgða­lausn.“

Spurður hvort að það sé verið að leita að stað­setningu fyrir fjölda­hjálpar­stöð eða hvort það séu komnar til­lögur um það segir Gunnar Hörður ekki ljóst hvar hún yrði sett upp og á­réttar að með því að hækka við­búnaðar­stigið sé verið að gera það kleift að kalla saman þá aðila sem þurfa að koma saman og hafa skoðun á því hvar hún yrði sett upp og hvaða þjónusta væri í boði þar.

Gunnar Hörður átti von á því að þessar upp­lýsingar myndu samt sem áður liggja fyrir fljót­lega því svo stutt er í að bú­setu­úr­ræðin fyllist alveg.

Móttökumiðstöð fyrir flóttafólk er þar sem áður var Domus Medica.
Fréttablaðið/Valli

Viljum hugsa vel um fólk

Fram kom í til­kynningu ríkis­lög­reglu­stjóra í morgun að frá 1. til 15. septem­ber komu til landsins 175 flótta­menn sem sé for­dæma­laus fjöldi og er búist við því að á næstu mánuðum verði fjöldinn enn meiri.

Gylfi Þór segir að á­standið krefjist þess að unnið sé hart að því að finna lausnir. Hann segir að fjöldi sveitar­fé­laga sé nú í við­ræðum um að taka á móti flótta­mönnum en eins og greint hefur verið frá í fréttum þá taka Reykja­vík, Hafnar­fjörður og Reykja­nes­bær á móti flestu flótta­fólki. Fé­lags- og vinnu­markaðs­ráð­herra sagði í upp­hafi mánaðar að við­ræður standi yfir við þrjá­tíu sveitar­fé­lög.

Gylfi bendir á að síðustu sjö daga hafi komið til landsins meira en átta­tíu flótta­menn og segir að nýjustu spár bendi til að mikill fjöldi muni koma á næstunni.

Hann segir ekki til skoðunar að opna flótta­manna­búðir heldur snúist að­gerðirnar um að skoða að­gerðir til að komast hjá því.

„Við viljum forðast í lengstu lög að opna flótta­manna­búðir. Við viljum hugsa vel um það fólk sem kemur hingað til lands.“

Spurður út í orð Gunnars Harðar og að um hættu­á­stand sé að ræða segir Gylfi að ríkis­lög­reglu­stjóri túlka á­standið á sinn hátt, sjálfur líti hann ein­fald­lega svo á að nú þurfi að leggja enn harðar að sér.

„Nú þurfum við að bretta upp ermar og hlaupa hraðar, enn fokking hraðar,“ segir Gylfi.