„Það var á­kveðið að óska eftir skýrslum frá öllum yfir­kjör­stjórnum og sér­stökum skýrslum líka frá yfir­kjör­stjórn í norð­vestur og suður­kjör­dæmi,“ segir Kristín Edwald, for­maður lands­kjör­stjórnar eftir fund stjórnarinnar.

„Við óskuðum eftir því að þetta myndi berast fyrir klukkan átta í kvöld,“ segir Kristín. Hún segir að­spurð að ekki hafi verið komnar neinar endan­legar niður­stöður frá neinni yfir­kjör­stjórn.

Að­spurð um það hvort þetta sé ekki vand­ræða­legt mál segir Kristín það baga­legt. „Þetta er baga­legt mál, þetta er mjög ó­heppi­legt. Trú­verðug­leiki kosninga er náttúru­lega gífur­lega mikil­vægur,“ segir Kristín.

„Og þess vegna höfum við þessa þrjá öryggis­ventla. Í fyrsta lagi að talning fari fram fyrir opnum dyrum þar sem allir kjós­endur geta fylgst með. Það eru líka um­boðs­mennirnir, að þeir geti komið og horft á, fylgst með og komið með at­huga­semdir og svo er það að sjálf­sögðu það hvernig gengið er frá kjör­gögnum.“

Enginn orðinn þingmaður

Að­spurð að því hvort hún skilji ó­á­nægju með fyrir­komu­lagið, meðal annars frá þeim sem héldu að þeir væru inni á þingi segir Kristín að enginn hafi verið orðinn þing­maður þar sem lands­kjör­stjórn hafi ekki verið búin að út­hluta þing­sætum og senda út kjör­bréf.

„En auð­vitað var fólk byrjað að fagna og byggja á niður­stöðum sem birtust í fjöl­miðlum.“ Hún segist ekki geta svarað því hve­nær kjör­bréf verða út­gefin. Hún voni að það muni ekki dragast.

Hvaða að­gerða ætlið þið að grípa til í kjöl­farið á þessu?

„Það hefur ekki verið á­kveðið endan­lega hvað verður gert næst. Við tökum núna eitt skref í einu, förum yfir stöðuna mjög reglu­lega, óskum eftir upp­lýsingum og viljum fá að vita hvað gerðist, hvað raun­veru­lega fór úr­skeiðis og tökum á­kvarðanir á grund­velli þess og eins og ég segi er afar mikil­vægt að það ríki traust um kosningarnar hjá öllum.“

Kristín bendir á að ný kosninga­lög taki gildi 1. janúar 2022. Þá verði breyting á lands­kjör­stjórn sem verði sjálf­stæð. „Og hefur þá meira eftir­lits-og boð­vald og sam­ræmingar­vald sem vantar núna, þar sem núna erum við með sex yfir­kjör­stjórnir sem eru í raun sjálf­stæðar í störfum sínum og geta eins og hefur verið rætt um tekið mis­munandi á­kvarðanir til dæmis varðandi gildi kjör­seðla.“

Hún segir raf­rænar kosningar stærra mál, sem hún sjái ekki fyrir sér að teknar verði upp í náinni fram­tíð hér­lendis, en raf­ræn kjör­skrá komi brátt. Kristín segir að sést hafi að munað hafi af­skap­lega litlu í norð­vestur og í suður. Þá geti yfir­kjör­stjórnir metið það hvort það kalli á við­brögð, hvort láta þurfi um­boðs­menn vita og hvort endur­talningu verði krafist.

Hún segir að­spurð að það sé hægt að kjósa aftur í einu kjör­dæmi. Slíkt kallist upp­kosning og gert ráð fyrir því í kosninga­lögum. „Við förum ekki með þá á­kvörðun, það er þá Al­þingi sjálft sem þyrfti að úr­skurða kosninguna ó­gilda.“

Ástæða fyrir reglunum

Varðandi lögmæti endurtalningar segir Kristín sömu reglur gilda um talningu og endurtalningu.

„Sömu reglur gilda um endurtalningu og upprunalega talningu, það er að umboðsmenn eiga þess kost að vera viðstaddir. Svo eru ströng skilyrði í lögum um hvernig meðferð kjörgagna er háttað. Ef skilyrði eru uppfyllt þá eru það löglegt.“

Voru þessi skilyrði uppfyllt?

„Það er mat hverrar yfirkjörstjórnar hvort skilyrðin séu uppfyllt.“

Er hægt að treysta endurtalningu þegar kjörgögn hafa ekki verið geymd á réttan hátt?

„Það er ástæða fyrir því að kveðið sé á um það í lögum að innsigla skuli kjörgögn. Það er til að það sé hafið yfir allan vafa að það hafi ekki verið átt við kjörgögn. Ef það er einhver vafi á því að átt hafi verið við kjörgögnin í millitíðinni þá segir það sig sjálft að það dregur úr trúverðugleika á endurtalningu.“

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar á Norðvesturlandi, sagði í samtali við Fréttablaðið að öryggismyndavélar sýndu að enginn hafi farið inn á svæðið. Er þá hægt að treysta þeim?

„Nú ert þú að vitna í eitthvað sem ég hef ekki en kemur vonandi til kjörstjórnar í kvöld. Þá get ég svarað þessu.“