Afskornir túlípanar eru ófáanlegir á Íslandi þessa dagana. Það þarf þó ekki að koma að öllu leyti á óvart því innlendir framleiðendur geta bara boðið upp á þessi vinsælu blóm frá desembermánuði til páska. Þessu vilja blómaheildsalar breyta og vilja ólmir flytja inn túlípana þaðan sem framboðið er nægt allt árið um kring. Það sem hamlar þó innflutningi eru gríðarlega háir tollar á vöruna.

Félag atvinnurekenda hefur sent ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara erindi þar sem farið er fram á að hinir háu tollar verði felldir niður. „Tollurinn er gríðarlega hár. Verðtollur er 30 prósent og auk þess er 95 króna stykkjatollur á hvert blóm. Tíu túlípana búnt, sem kostar 600 krónur í innkaupum, fær því á sig 1.130 krónur í toll, þannig að innkaupsverðið hartnær þrefaldast. Þessi skattlagning er að mati FA ekki forsvaranleg gagnvart neytendum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri samtakanna.

Blómasalar eru á því að talsverð eftirspurn sé eftir túlípönum allt árið um kring en þó virðist ekki einhugur um hvort þörf sé á innflutningi. „Mér finnst bara hið besta mál að sum blóm séu bara fáanleg yfir eitthvað tímabil. Það er nóg af öðrum fallegum blómum til,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, blómasali í 18 rauðum rósum í Kópavogi.