Héraðssaksóknari fer fram á tvo til þrjá mánuði í skilorðsbundnu fangelsi yfir Jóni Baldvin Hannibaldssyni, fyrrverandi ráðherra. Hann er ákærður fyrir að hafa kynferðislega áreitt Carmen Jóhannsdóttur með því að hafa strokið rass hennar ákaft í vitna viðurvist á Spáni í júní 2018. Carmen hafi verið í matarboði uppi á þaki ásamt Jóni Baldvin, Bryndísi, Laufeyju móður sinni og vinkonu þeirra hjóna.

Réttargæslumaður Carmen fer fram á eina milljón króna, ásamt vöxtum, í bætur. Verjandi fer fram á sýknu.

Jón Baldvin hafnar því alfarið að hafa kynferðislega áreitt Carmen, fram kom í vitnisburði hans og Bryndísar að þarna hefði eitthvað óeðlilegt átt sér stað, tilgangur heimsóknarinnar hafi verið að koma á hann höggi.

Sviðsetning langsótt

Dröfn Kærnested saksóknari sagði að þrátt fyrir að Bryndís og vinkona hennar hafi ekki séð neitt þýði það ekki að atvikið hafi ekki gerst.

„Framburður ákærða er ótrúverðugur og ekki í samræmi við annarra,“ sagði hún. „Það sem eykur á trúverðugleika brotaþola er að Laufey ber strax upp ásakanir“

Eina rökrétta skýringin sé að Laufey hafi orðið vitni að Jóni Baldvini að áreita Carmen. Bryndís og vinkona þeirra hafi reynt að draga úr trúverðugleika Laufeyjar með því að tala um lyf og vín en það liggi ekki fyrir. Þá sé það langsótt skýring að matarboðið hafi verið sviðsett þar sem það hafi verið Bryndís sem hafi boðið mæðgunum í mat.

Carmen hafi lýst því að hún hafi farið í sjokk og öll vitni séu sammála um að hún hafi rokið af vettvangi eftir ásakanirnar. Þrjú vitni, systir hennar, fyrrverandi kærasti og vinur geti staðfest að Carmen hafi verið í uppnámi, þá hafi öll fengið að heyra ásökunina.

Dröfn tók fram að það væri hægt að dæma einhvern í 2 ára fangelsi fyrir kynferðislega áreitni. Jón Baldvin hefði ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi áður en hafi gert sátt vegna ölvunaraksturs í fortíðinni.

Engin rannsókn á vettvangi

Jón Baldvin ásamt lögmanni sínum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Jóns Baldvins, fór fram á sýknu en vægustu refsingu til vara. Hann telur framburð mæðgnanna ekki samræmast öðrum og gangi ekki upp. Framburður Carmen sé ekki einu sinni í samræmi við framburð móður sinnar varðandi staðsetningu glasanna á borðinu. Velti hann því upp að ef Jón Baldvin hefði snert Carmen á meðan hún væri að hella víninu þá hljóti það að hafa áhrif.

„Það verður að hafna þessari atburðarás og leggja til grundvallar að þetta hafi verið með þeim hætti sem áður er lýst,“ sagði Vilhjálmur. „Engin rannsókn á sér stað á vettvangi. Engar myndir á vettvangi. Engar frumskýrslur teknar strax. Engar skýrslur af starfsfólki á þessu veitingahúsi. Engin raunverulega rannsókn fer fram og þegar rannsókn fer fram á Íslandi eru teknar símaskýrslur því jú öll vitnin voru stödd úti á Spáni.“

Í lokin spurði dómari Jón Baldvin hvort hann vildi bæta einhverju við, því svaraði hann: „Nei, ég er að sofna.“