Sigurður E. Þorvaldsson læknir setur fram þá áhugaverðu hugmynd í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær að Kristsmynd Bertels Thorvaldsens, sem prýðir Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn, verði fenginn staður í kórnum í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti.

Ekki er það þó tillagan að við Íslendingar gerum kröfu til þeirrar styttu sem er í Frúarkirkjunni. Thorvaldsen gerði styttuna upphaflega úr gifsi en hún var síðan höggvin í fegursta marmara. Fleiri eintök hafa verið gerð úr marmara og nákvæm mál hennar hafa verið skráð og eru geymd í Vatíkaninu í Róm.

Styttan er 3,45 metrar á hæð og að mati Sigurðar og fleiri áhugamanna um málið myndi hún sóma sér vel í kórnum í Hallgrímskirkju þar sem hún yrði böðuð sólargeislum á góðum sólardegi, en Hallgrímskirkja er einstaklega björt, enda gluggar hennar stórir og bjartir.

Áhugamönnum um að fá eintak af styttunni til að prýða kór Hallgrímskirkju finnst vel við hæfi að þetta stórbrotna verk dansk-íslenska listamannsins prýði þessa stærstu kirkju landsins.

Í íslenskum föðurlegg Thorvaldsens var mikið listfengi. Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti Íslands, ritaði langa og lærða grein í sýningarskrá fyrir stórsýningu á verkum Thorvaldsens á Kjarvalsstöðum 1982. Þetta var fyrsta stóra sýningin sem Thorvaldsen-safnið í Kaupmannahöfn stóð fyrir utan Danmerkur.

Kristján kemur meðal annars inn á listfengi í ættum sem stóðu að Thorvaldsen: „… auðvelt er að rekja ætt Guðrúnar, móður Gottskálks (Þorvaldssonar föður Bertels) til Vatnsfirðinganna afkomenda Guðbrands biskups, en í þeirri ætt voru listir og hagleikur í miklum metum og virðist svo hafa verið mann fram af manni. Um Þorvald prest (afa Bertels) er sagt að hann muni ekki hafa verið lærdómsmaður að ráði, en hins vegar er jafnan talið og má rökstyðja það, að hann hafi verið smiður góður og listhagur. Til marks um það er haft að hann byggði upp kirkju og bæjarhús á Miklabæ af mikilli smekkvísi og með meiri tilkostnaði en hann fékk staðið undir með góðu móti.“

Hugmyndin um að fá Kristsmynd Thorvaldsens í kórinn í Hallgrímskirkju er ekki ný af nálinni og hefur hún meðal annars komið til umræðu í sóknarnefnd kirkjunnar fyrir einhverjum árum. Í samtali við Fréttablaðið segir Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar, að á þeim tíma hafi verið tekið fremur dræmt í hugmyndina meðal annars vegna þess að sóknarnefndarfólk hafi talið svo mikið og stórgert listaverk stinga í stúf við þann einfalda stíl sem einkennir kirkjuna að innan.

„Mér finnst Kristsmynd Thorvaldsens einhver fallegasta stytta sem til er,“ segir Einar Karl. Að hans sögn hefur þetta mál hins vegar ekki verið tekið upp í sóknarnefnd nýlega.