Hlutfall kvenna í ný­ráðningum hjá fyrirtækinu Origo í fyrra var alls 40 prósent og hlutfall kvenna af öllum starfandi hjá fyrirtækinu alls 24 prósent.

„Origo hefur náð að standa við það sem fyrir­tækið ætlaði sér varðandi að fjölga konum í tækni­störfum. Upp­lýsinga­tækni­geirinn er enn nokkuð karl­lægur og því mikil­vægt að fjölga konum í þeim geira,“ segir Dröfn Guð­munds­dóttir, mann­auðs­stjóri hjá Origo.

„Þessi geiri er ört vaxandi og til að tryggja að hug­búnaður og lausnir sem eru þróaðar fyrir við­skipta­líf og sam­fé­lög til fram­tíðar séu þróuð af fólki með fjöl­breyttan bak­grunn og að tekið sé til­lit til mis­munandi sjónar­miða,“ segir Dröfn.

Mark­miðið segir Dröfn helst vera að auka fjöl­breytni.

„Maður er ekkert að segja að karlar séu frá Mars og konur frá Venus en við vitum að blöndun er alltaf af hinu góða,“ segir Dröfn. „Þótt við viljum styðja við fram­göngu kvenna á það ekki að vera á kostnað drengja. Við viljum ekki á neinn hátt halda þeim niðri. Við erum að stækka kökuna. Það verður alltaf pláss fyrir stráka í upp­lýsinga­tækni á­fram.“

Maður er ekkert að segja að karlar séu frá Mars og konur frá Venus en við vitum að blöndun er alltaf af hinu góða.

Dröfn segir að um­ræða um blöndun og fjöl­breytni sé há­vær í tækni­bransanum al­mennt. „Það er allt að verða tækni­vætt og því er mikil­vægt að tæknin sé bæði þjónustuð og þróuð af hópi sem endur­speglar sam­fé­lagið, sama hvort það eru konur eða karlar og því ættum við auð­vitað öll að vera partur af þróuninni. Það er drif­krafturinn í þessu. Að fá sjónar­mið fjöl­breyttari hópa að borðinu,“ segir hún.

Dröfn segir að þau vilji ekki aðeins að starfshópurinn endur­spegli sjónar­mið kvenna og karla. Einnig sé mikil­vægt að blanda saman reynslu þeirra sem eldri eru og þeirra yngri og ó­líkum bak­grunni.

„Við erum að þróa lausnir fyrir fram­tíðina og þess vegna er rosa­lega mikil­vægt fyrir okkur og tækni­geirann að hafa reynslu­bolta og ungt og ferskt fólk,“ segir Dröfn. Til að styðja við þessi mark­mið hafi þau, sem dæmi, lagt aukna á­herslu á að horfa að­eins minna á reynslu og ein­blína á aðra hæfni­þætti í ný­ráðningum þegar tæki­færi gefst til.

„Við erum með mikið af öflugum reynslu­boltum svo í sumum til­vikum nýtum við tæki­færið í ný­ráðningum til að horfa til unga fólksins sem hefur önnur sjónar­mið og aðra færni­þætti en fyrir eru.“

Dröfn segir störf sem séu í boði hjá Origo vera fjöl­breytt.

„Þetta eru ekki bara nördar, for­ritun og stærð­fræði­for­múlur. Þetta eru ó­trú­lega skapandi störf og mikil sam­skipti. Það eru mörg spennandi störf fyrir konur hérna og okkur langar að stúlkur hugsi líka til okkar þegar þær eru að velja sér starfs­frama,“ segir Dröfn.