Borgarstjórnarflokkur sósíalista vottar aðstandendum þeirra sem létust í brunanum við Bræðraborgarstíg samúð. Þau krefjast réttlætis í málinu í formi viðurkenningar yfirvalda á aðgerðarleysi sínu gagnvart kúgun innflytjenda í láglaunastörfum. Krafist er aðgerða sem tryggi að fólk verði ekki framar gert að búa við óöryggi, ótta og ósæmandi kjör og aðstæður.

„Braskvæðing húsnæðismarkaðar og vinnumarkaðar hefur átt sér stað með stuðningi yfirvalda og oft beinni aðkomu þeirra. Þrátt fyrir háværar kröfur um umbætur frá almenningi, fjölmiðlum, verkalýðsfélögum og öðrum fulltrúum almennings þá hafa yfirvöld ekki brugðist við, hvorki ríki, borg eða önnur sveitarfélög. Og þegar á hefur reynt hafa stjórnvöld og dómstólar verndað braskarana en ekki fólkið sem þeir níðast á eða þau sem reynt hafa að berjast fyrir bættum aðbúnaði og kjörum innflytjenda. Þessu verður að snúa við,“ segir í tilkynningu frá Sósíalistum.

Afleiðing af kerfisbundnum fordómum

Þrír létust í brunanum við Bræðraborgarstíg fyrir helgi. Fólk kom saman á Austurvelli í gær til að minnast þeirra sem létust í brunanum á Bræðraborgarstíg. Gengið var frá Austurvelli á Bræðraborgarstíg þar sem minningarstund var haldin. Skipu­leggj­endur sam­stöðu­mót­mælanna sögðu ekki boð­legt að stjórn­völd láti er­lent verka­fólk falla milli skips og bryggju og vilja tafar­lausar að­gerðir.

Sósíalistar krefjast þess að yfirvöld gangist við ábyrgð sinni. Þrátt fyrir fjölmargar ábendingar, skýrslur og úttektir um óbærilegar aðstæður láglaunafólks og innflytjenda á húsnæðismarkaði þá hafi borgaryfirvöld ekkert gert, frekar en önnur yfirvöld. „Þetta sinnuleysi er ekki tilviljun. Það er afleiðing af kerfisbundnum fordómum og mismunun gagnvart varnarlausu fólki, valdalausu og fátæku.“

Vilja stofna innflytjendaráð

Borgarstjórnarflokkur sósíalista leggur til að skipað verði innflytjendaráð í Reykjavík þar sem sæti eigi innflytjendur í láglaunastörfum og í veikri stöðu á húsnæðismarkaði til að leggja fram tillögur til úrlausna. Innflytjendaráðið starfi með umboðsmanni innflytjenda sem ráðinn verði úr hópi innflytjenda til að gæta hagsmuna þeirra innan borgarkerfisins og tryggja að rödd þeirra heyrist hátt og skýrt í samfélaginu.

Einnig krefst borgarstjórnarflokkurinn að Reykjavíkurborgi opni eitthvað af lokuðum íbúðahótelunum í borginni og hýsi fólkið sem varð húsnæðislaust við brunann við Bræðraborgarstíg.

„Það er ekkert húsnæðisleysi í Reykjavík, aðeins sinnuleysi borgaryfirvalda gagnvart neyð hinna fátæku og valdalausu.“