Þingmenn Viðreisnar, Pírata og Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands. Fyrsti flutningsmaður þess er Sigmar Guðmundsson, hjá Viðreisn.

Í tillögunni segir að markmið hennar sé að „tryggja að stjórnvöld sendi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki á svæði þar sem aðstæður eru óviðunandi og hætt er við að fólk verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.“

Bent er á að Íslenska ríkið hafi áður metið aðstæður tiltekinna svæða til móttöku flóttafólks óviðunandi, og í því samhengi megi nefna þegar Útlendingastofnun hætti að senda fólk til Grikklands árið 2010. Það var vegna þess að þarlend stjórnvöld gátu ekki staðið við alþjóðlegar skuldbindingar um aðbúnað flóttafólks.

Flutningsmenn tillögunnar telja aðstæður í Grikklandi, Ítalíu og í Ungverjalandi vafalaust veita tilefni til þess að stöðva brottvísanir þangað. Bent er á samanburðargreiningu Evrópuþingsins, aðrar alþjóðlegar skýrslur, og frásagnir flóttafólks sem hefur dvalið þar styðji við þá skoðun.

Mál fimmtán manns sem var vísað til Grikklands í síðustu viku hefur vakið gríðarlega athygli. Sum þeirra sem var vísað úr landi hafa lýst aðstæðunum sem þau búa nú við og segja þær ekki góðar.