Umhverfisnefnd Garðabæjar hefur lagt til að óskað verði eftir undanþágu frá friðlýsingarskilmálum Gálgahrauns og Garðahrauns varðandi friðun máva á svæðunum.

Ástæðan er sú að nokkuð hefur verið um orðsendingar íbúa til bæjarins vegna ágangs fuglanna og hyggst bærinn nú ganga lengra í að stemma stigu við fjölgun þeirra.

Hingað til hafa aðgerðir einskorðast við að bæjarstarfsmenn stinga á mávaegg sem finnast í hreiðrum á svæðunum.

Fréttablaðið greindi frá tíðum kvörtunum bæjarbúa í júlí en þær voru vegna árása máva á gangandi vegfarendur auk þess sem það fór fyrir brjóstið á íbúum að sjá máva éta ungviði annarra fugla.