Búið er að boða til fundar Landskjörstjórnar klukkan hálf tvö í dag. Þar verður óskað eftir skýrslu frá yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi um framkvæmd kosninga og atkvæða talningar.

Þetta segir Kristín Edwald formaður Landskjörstjórnar. Einnig verði óskað eftir upplýsingum um geymslu kjörgagna.

Hún segir hugsanlegt að einnig verði óskað eftir skýrslum frá öðrum yfirkjörstjórnum.

Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi kemur einnig saman í dag. Fjórir flokkar hafa óskað eftir endurtalningu í því kjördæmi, Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Pír­at­ar, Sós­í­al­ist­a­flokk­ur og VG.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, sagði við fréttastofu Vísis í gær að kjörgögnin hafi ekki verið innsigluð um leið og talningu lauk heldur hafi þau verið geymd í læstum sal á hótelinu. Hann segir ekkert athugavert við þau vinnubrögð.

Magnús Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu, sagði í Facebook-færslu að réttast væri að kjósa aftur í kjördæminu þar sem trúverðugleiki kosninganna væri enginn. „Eina leiðin til að leysa úr þessu er að endur­taka kosningarnar í Norð­vestur­kjör­dæmi og tryggja gagn­sæi og að farið sé eftir lögum og reglum,“ segir hann.

Erlendir fjölmiðlar víða um heim hafa verið duglegir að fjalla um mistök talningar hér á landi.