Sex af hverjum tíu sem taka afstöðu eru sammála því að bólusetning gegn COVID-19 eigi að vera skylda hér á landi. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið. 34 prósent þeirra sem svara eru mjög fylgjandi bólusetningarskyldu og 24 prósent eru frekar sammála.

Tæpur fjórðungur er ósammála því að skylda eigi fólk til bólusetningar gegn COVID-19, tíu prósent eru mjög ósammála og fjórtán prósent frekar ósammála. Fjórtán prósent segja hvorki né, fjögur prósent svarenda taka ekki afstöðu.

Bólusetning.png

Ekki skylda að láta bólusetja

Fyrstu skammtar bóluefnis frá Pfizer og BioNTech komu hingað til lands í gærmorgun. Um er að ræða tíu þúsund skammta. Fleiri skammtar, frá fleiri framleiðendum, eru væntanlegir til landsins á nýju ári. Byrjað verður að bólusetja íbúa hjúkrunarheimila og framlínufólk í heilbrigðisþjónustu.

Ítrekað hefur komið fram á upplýsingafundum almannavarna að fólk verður ekki skyldað til að láta bólusetja sig, þá er bólusetning gjaldfrjáls. Fram kom í könnun sem Gallup framkvæmdi í september og í könnun Maskínu frá því fyrr í mánuðinum að níu af hverjum tíu muni þiggja bólusetningu við COVID19. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að til að ná hjarðónæmi þurfi þátttöku 70 prósenta landsmanna. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að hún treysti á samstöðu landsmanna þegar kemur að bólusetningu. „Landsmenn hafa að jafnaði tekið þátt í bólusetningum af mikilli ábyrgð. Það er mín skoðun að rétt sé að treysta hér eftir sem hingað til á öfluga samstöðu í samfélaginu í glímunni við COVID-19.“

Meiri andstaða meðal tekjuhærri

Íbúar á landsbyggðinni eru líklegri en höfuðborgarbúar til að vera sammála því að bólusetning gegn COVID-19 eigi að vera skylda hér á landi, 65 prósent á móti 58 prósentum. Svörin skiptast tiltölulega jafn á milli kynja en konur eru eilítið líklegri en karlar til að vera fylgjandi bólusetningarskyldu.

Einstaklingar 65 ára og eldri eru líklegastir til að vera fylgjandi bólusetningarskyldu, 70 prósent. Sá aldurshópur er í áhættuhópi þegar kemur að smiti, en einstaklingar 60 ára og eldri eru í sjötta forgangshópnum þegar kemur að bóluefni. Mesta andstaðan er í hópi 45 til 54 ára en 30 prósent þeirra eru á móti bólusetningarskyldu á móti 53 prósentum sem eru henni fylgjandi.

Andstaðan mælist 33 prósent í hópi þeirra sem eru með 800 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun, þar eru þó 57 prósent fylgjandi. Andstaðan við bólusetningarskyldu er minnst í hópi þeirra sem eru með 400 til 599 þúsund krónur í mánaðarlaun, 18 prósent á móti 67 prósentum sem eru fylgjandi.

Andstaðan er einnig mest meðal þeirra með þrjú eða fleiri börn á heimili, 33 prósent á móti 58 prósentum sem eru fylgjandi. Minnsta andstaðan er meðal þeirra sem hafa eitt eða engin börn á heimili, 23 prósent á móti 62 prósentum sem eru fylgjandi bólusetningarskyldu.

Eina mynstrið sem sjá má í niðurstöðunum er meiri andstaða eftir því sem menntunarstig er hærra. 31 prósent fólks með framhaldsmenntun úr háskóla er ósammála því að bólusetning gegn COVID-19 eigi að vera skylda hér á landi, 51 prósent er því sammála. 20 prósent fólks með grunnskólapróf eru á móti bólusetningarskyldu, 67 prósent eru henni fylgjandi.

Píratar mest hlynntir bólusetningarskyldu

Þegar litið er til stjórnmálaskoðana eru kjósendur Pírata og Vinstri grænna líklegastir til að styðja bólusetningarskyldu, eða 66 og 65 prósent. Aðeins 11 prósent Framsóknarmanna eru á móti bólusetningarskyldu á móti 63 prósentum sem eru því fylgjandi. 61 prósent Sjálfstæðismanna er fylgjandi bólusetningarskyldu, 25 prósent eru á móti. 31 prósent stuðningsfólks Samfylkingarinnar er á móti en 58 prósent eru því fylgjandi, svipaðar tölur eru hjá stuðningsmönnum Viðreisnar og Flokks fólksins. Mesta andstaðan er meðal stuðningsfólks Miðflokksins, 34 prósent eru á móti bólusetningarskyldu en 60 prósent eru fylgjandi.

Lagaheimild til staðar

Samkvæmt svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn mbl er lagaheimild til staðar til að skylda fólk í bólusetningu, en samkvæmt sóttvarnalögum getur ráðherra að tillögu sóttvarnalæknis ákveðið að grípa til sóttvarnaaðgerða, þar á meðal ónæmisaðgerða.

Heimildinni er breytt í frumvarpi heilbrigðisráðherra að sóttvarnalögum, þar hefur verið bætt við að við beitingu ráðstafana skuli gæta meðalhófs og jafnræðis. Þá megi aðeins beita ráðstöfunum í brýnni nauðsyn til verndar heilsu og lífi manna. Lögfræðingar sem Fréttablaðið hefur rætt við telja að með þessum breytingum séu ráðherra settar skorður, þá sé ekki ljóst hvort núverandi ákvæði myndi halda fyrir dómstólum.

Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna og svartími var frá 11. til 19. desember. Í hópnum voru 2.500 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri og voru svör þeirra vegin eftir kyni, aldri og búsetu. Alls svaraði 1.331, eða 52,8 prósent