Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags-og samgönguráðs Reykjavíkurborgar og Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, leggja í dag báðar til að Íslendingar skoði lestarsamgöngur.
Tilefnið er frétt Fréttablaðsins um að Evrópusambandið skoði nú að nota hluta af tveggja trilljóna evra björgunarsjóði til að koma upp hraðlestakerfi um álfuna.
„Við eigum að skoða lestarsamgöngur á Íslandi. Sérstaklega í ljósi Covid 19. Sérstaklega í ljósi loftslagsbreytinga. Sérstaklega í ljósi lífsgæða komandi kynslóða,“ skrifar Sigurborg.
Hún segir að samgönguáætlun sem nú sé í umræðu á Alþingi bera keim af hugarfarinu „business as usual.“ Bendir hún á að þar sé hvergi minnst á að skoðaðar verði kostnaður eða ábati við lestarsamgöngur hérlendis. Mikilvægt sé að samgönguáætlun taki mið af loftlagsmálum en ekki öfugt.
Hún segir niðurstöðu úr úttekt Loftlagsráðs á stjórnsýslu í kringum loftlagsmál á Íslandi sláandi. „Verkaskipting er óskýr, það skortir samræmda heildarsýn, utanumhaldið er óljóst og losaralegt og í raun gengið svo langt að segja að ekki sé nein raunveruleg stjórnsýsla í loftslagsmálum. Að mati Capacent þarf að flétta loftslagsmálin betur inn í allar ákvarðanir stjórnvalda, strax á frumstigi.“
„Þar er léttlestin málið“
Helga Vala segir að léttlestir séu klárlega það sem koma skal í samgöngum framtíðarinnar.
„Mig langar mikið að koma okkur inn i þessa framtíðarsýn og greiða leið þeirra sem hafa verið að skoða hér á landi,“ skrifar Helga.
„Léttlestir eru klárlega það sem koma skal en einmitt á þessari stundu eru aðilar í málþófi í þinginu sem ásamt skoðanasystkinum á þingi líta meðal annars á strætó sem ógn og tímasóun og vilja að því er virðist bara fleiri mislæg gatnamót og trúa ekki á loftslagsvá. Það er tími til kominn að opna augun fyrir framþróun í samgöngum. Þar er léttlestin málið.“