Alþjóðleg kvennasamtök sem berjast gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni munu halda heimsfund í Hörpu 16. til 18. ágúst næstkomandi undir yfirskriftinni Reykjavík Dialogue, renewing activism to end violence against women.
„Hugmyndin kviknaði í fyrra eða jafnvel fyrr og kemur frá því að aktivistar og fólk sem vinnur með brotaþolum ofbeldis langaði að hittast og ráða ráðum sínum,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra hjá Stígamótum í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir að á hverju ári séu áhugaverðir alþjóðlegir fundir skipulagðir en þeir séu oft á vegum ríkisstjórna, Sameinuðu þjóðanna eða annarra stórra milliríkjastofnanna.
„Raddir þeirra sem eru á vettvangi að vinna vinnuna með brotaþolum eru ekkert sérstaklega áberandi á slíkum fundum og í þessum samræðum. En það hafa verið haldnar svona ráðstefnur áður og það er enn talað á Stígamótum um ráðstefnu sem haldin var í Brighton árið 1996 þar sem að komu saman konur frá öllum heimshornum sem vinna að því að binda enda á ofbeldi gegn konum,“ segir Steinunn.
Hún segir að frá þeim tíma hafi ekki verið haldin slík ráðstefna eða fundur aftur og að hugmyndin að baki heimsfundinum sem haldinn verður hér í ágúst sé sú að endurtaka þann fund.
Ríkisstjórnin og Reykjavíkurborg styrkja fundinn og aðstoða við að gera fundinn að veruleika. „En ráðstefnan og fundurinn sjálfur er skipulagt af grasrótinni,“ segir Steinunn.
Þannig það er frelsi og ráðrúm til að gagnrýna?
„Hugmyndin er sú að það er algert dagskrárfrelsi fyrir okkur í grasrótinni til að ákveða hvað verður talað um og hvernig við tölum um það,“ segir Steinunn.

Ráðstefnan rafræn en vonast til að geta haldið fund
Hún á von á því að þróun heimsfaraldursins hafi áhrif á það hvernig fundurinn og ráðstefnan fari fram en það sé ákveðið að ráðstefnan verði á netinu. Það standa þó vonir til þess að það sem kallast Reykjavík Dialogue verði hægt að halda hér í raunheimi.
„Það verða kannski 100 manns og vonandi tekst okkur að halda það á Íslandi og hittast í sama rýminu. En það er auðvitað háð því hvernig gengur með bólusetningar um allan heim,“ segir Steinunn.
Hún á von á því að fleiri en ella geti tekið þátt því ráðstefnan verður á netinu og segir að það sé unnið að því að finna lausnir svo fólkið sem sé á ráðstefnunni séu ekki bara áheyrendur heldur geti þau tekið þátt.
„Dagskráin er ómótuð en markmiðin eru að segja hvert öðru frá því hvað við höfum verið að gera og móta aðgerðaáætlun til næstu fimm ára eða hvað okkur finnst vera mestu forgangsatriðin á næstu árum í baráttunni gegn ofbeldi. Við viljum fá pólitíska útkomu eftir fundinn,“ segir Steinunn.
Ólíkar áskoranir
Hún segir að aðstæður séu auðvitað ólíkar víða um heim og það verði sannarlega tekið tillit til þess á fundinum og í þeirri aðgerðaáætlun sem sett verður saman.
„Hjá ákveðnum heimshlutum eru forgangsatriðin limlestingar á kynfærum kvenna og barnahjónabönd og það er ekki það sem við erum að kljást við hér á Íslandi. Það sem við erum að kljást við eru aðrar útgáfur af kynbundnu ofbeldi sem er ekki síður mikilvægt að takast á við. Vissulega eru því áskoranirnar ólíkar en sameiginlega ætlum við að reyna að setja forgangsatriði á oddinn og styðja við hver aðra, sama hvar við erum í heiminum,“ segir Steinunn að lokum.
Ríkisstjórnin samþykkti á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 2020, að styrkja fundinn. Þá hefur Reykjavíkurborg einnig samþykkt að styðja við fundinn.
„Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er skýrasta birtingarmynd misréttis og bæði orsök þess og afleiðing. Barátta kvennahreyfingarinnar og samstarf hennar við samtök víða um heim hefur sannarlega verið íslensku samfélagi til heilla. Þessi fundur er liður í sameiginlegri baráttu okkar til að uppræta hverskyns kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni gegn konum og stúlkum í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna,” sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í tilkynningu frá ráðuneytinu í vikunni.
Tilkynning er aðgengileg hér.
Hægt er að fylgjast með skipulagningu fundarins hér á vefsíðu Reykjavík Dialogue.