Nágrannar hafa sent Garðabæ harðort bréf þar sem þess er krafist að bærinn viðurkenni skaðabótaskyldu vegna meints ólögmæts byggingarleyfis fyrir einbýlishús við Frjóakur 9 og gangi til samninga um skaðabætur vegna þess.

Í bréfinu kemur fram að það sé skoðun nágranna að farið hafi verið á sig við lög um mannvirki, skipulagslög og skipulagsskilmála Akrahverfis í Garðabæ með margvíslegum hætti við byggingu hússins.

Það vakti nokkra athygli þegar hjónin Margrét Íris Baldursdóttir og Magnús Ármann fjárfestu í húsinu við Frjóakur 9 í byrjun árs enda eitt dýrasta einbýlishús landsins. Kaupverðið var 360 milljónir króna.

Húsið keyptu þau af athafnamanninum Antoni Kristni Þórarinssyni en innanhúsarkitektinn Berglind Berndsen hafði nýlega hannað húsið allt að innan. Þess má geta að svo vel tókst til að Sindri Sindrason fjallaði um húsið og íburð þess í þætti sínum Heimsóknin í febrúar.

Magnús og Margrét hófu hins vegar strax umfangsmiklar og umdeildar framkvæmdir á eigninni. Meðal annars eru þau langt komin með að útbúa fullkomna líkamsræktaraðstöðu í kjallara hússins þar sem útgengt er út í garðinn.

Það telja nágrannar brot á deiliskipulagi enda fékkst undanþága til þess að stækka kjallara hússins á sínum tíma gegn því að um gluggalaust rými væri að ræða sem hefði lítil áhrif á nágranna.

d50280705_narmynd_08 (1).jpg

Magnús Ármann

Þá hefur verið reist steinsteypt sána við lóðarmörkin, eitthvað sem nágrannirnar telja að sé óheimilt og vilja að verði fjarlægt. Er vísað til þess að smáhýsi á lóðum séu almennt hugsuð sem einhverskonar geymsla, byggð úr léttum byggingarefnum og alls ekki ætlað til íveru. Engar heimildir séu til þess að reisa slíka byggingu á lóðinni sem í ofanálag er með glugga sem vísar að aðliggjandi lóðum.

Í bréfinu kemur fram að sáttavilji Magnúsar og Margrétar í deilunni hafi verið enginn og þá er farið hörðum orðum um þátt byggingarfulltrúa Garðabæjar. Um langt skeið hafi verið óskað eftir því að bærinn gripi til aðgerða vegna hinna meintu óleyfis framkvæmda en ekkert hafi verið aðhafst.

Bréfið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Garðabæjar í byrjun vikunnar. Þar kom fram að framkvæmdir við húsið hafi verið stöðvaðar og var bæjarstjóra falið að svara því.

Fara nágrannarnir fram á að eignin verði færð til rétts horfs í samræmi við gildandi lög og reglur.