Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, hefur staðfest opinberlega að friðarviðræður séu að hefjast við Þjóðfrelsishreyfingu Tígra (TPLF) í borgarastríðinu sem hefur geisað um Tígraí-hérað Eþíópíu frá árinu 2020. Abiy tilkynnti á þriðjudaginn að ríkisstjórnin hefði stofnað nefnd til þess að semja við uppreisnarhópana.

Nefndin er leidd af aðstoðarforsætisráðherranum Demeke Mekonnen og hefur tíu til fimmtán daga til að gera nánari grein fyrir framkvæmd viðræðnanna. Debretsion Gebremichael, formaður TPLF, sagði að fylking hans myndi senda samningateymi og væri reiðubúin til að taka þátt í „trúverðugu, óhlutdrægu og öguðu“ friðarferli.

Brynjólfur Þorvarðsson, íslenskur forritari sem er búsettur í Bahir Dar í Eþíópíu, segir að með því að fallast á að koma að samningaborðinu hafi TPLF í reynd viðurkennt ósigur. „Sagt er að TPLF muni viðurkenna lögmæti ríkisstjórnar dr. Abiy og að þeir séu reiðubúnir að semja um framtíð Welkeik-héraðs,“ skrifaði hann til Fréttablaðsins. „Á móti mun ríkisstjórnin hafa lofað að hefja strax vinnu við að koma á síma- og internetsambandi og endurræsa bankakerfið í Tígraí, en fjársendingar erlendis frá eru ein meginstoð hagkerfis Tígraí eins og svo víða annars staðar í Afríku.“

TPLF réð yfir Eþíópíu frá byrjun tíunda áratugarins til ársins 2018 sem stærsti flokkurinn innan Lýðræðis- og byltingarhreyfingar eþíópísku þjóðarinnar (EPRDF), bandalags stjórnmálahreyfinga sem sigruðu kommúnistastjórn Mengistu Haile Mariam árið 1991. TPLF glataði áhrifum sínum í ríkisstjórn Eþíópíu eftir fjöldamótmæli árið 2018 sem leiddu til þess að Abiy Ahmed var skipaður forsætisráðherra.

Her TPLF sótti að eþíópísku höfuðborginni Addis Ababa í nóvember síðastliðinn en sambandsher stjórnarinnar stöðvaði framsóknina um 200 km frá borgarmörkunum. „Frá því um miðjan desember 2021 má segja að stríðinu hafi verið lokið,“ skrifaði Brynjólfur. „Langflestir Eþíópíubúar virðast hafa gleymt að í norðri er enn verið að berjast, þótt í litlum mæli sé.“

Samkvæmt tilkynningu Abiy mun samninganefndin skila skýrslu um umfang friðarviðræðnanna áður en gengið verður að samningaborðinu. Ákvarða verði um hvað verði samið og hvaða kröfur verði settar fram. Áætlað er að viðræðurnar fari fram í Naíróbí og að Uhuru Kenyatta, forseti Keníu, verði milligöngumaður stríðsaðilanna.