„Samherji mun áfram eiga samskipti við þar til bær stjórnvöld sem sýnt hafa vilja til gagnkvæmrar samvinnu og bjóða fram aðstoð vegna rannsókna á ásökunum sem tengjast starfseminni í Namibíu,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson, formaður stjórnar Samherja, í yfirlýsingu í gær vegna loka rannsóknar norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á umsvifum Samherja í Namibíu og meintum lögbrotum þar í landi.

Eiríkur segir í yfirlýsingunni að nú hafi Wikborg Rein, að lokinni átta mánaða vinnu, skilað ítarlegri skýrslu með helstu niðurstöðum. Skýrslan hefur ekki verið birt opinberlega og uppgefinn tengiliður Samherja vegna yfirlýsingarinnar svaraði ekki ósk Fréttablaðsins um samtal við Eirík eða aðra hjá fyrirtækinu til að fá nánari skýringar á því sem fram kemur í yfirlýsingu stjórnarformannsins.

Í yfirlýsingunni segir hins vegar að þegar Wikborg Rein hafi fundað með fulltrúum viðeigandi stjórnvalda þurfi að taka afstöðu til fjölmargra atriða. „Þar á meðal hvaða niðurstöður rannsóknarinnar er hægt að birta opinberlega og hvernig. Í því sambandi þarf að meta hvort birting kunni að hafa áhrif á rannsóknir í öðrum ríkjum. Þá þarf að meta hvort birting á upplýsingum gangi í berhögg við lög og reglur vegna þeirra einstaklinga sem kunna að koma við sögu.“

Enn fremur segir að þegar liggi fyrir samkomulag um að lögmenn Wikborg Rein eigi fund með embætti héraðssaksóknara með haustinu. „Þá hafa nokkrir fundir verið haldnir með fulltrúum namibískra stjórnvalda til að kanna grundvöll fyrir svipuðu samstarfi við þau,“ segir í yfirlýsingunni.