Landeigandi í Skorradal segir sérstaka stöðu komna upp eftir að úrskurðarnefnd vísaði máli varðandi Andakílsvirkjun frá. Orka náttúrunnar vill nú strax hefjast handa við framkvæmdir.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál vísaði máli Huldu Guðmundsdóttur, landeiganda á Fitjum í Skorradal, varðandi Andakílsvirkjun frá. Hulda taldi að Skipulagsstofnun væri ekki heimilt að úrskurða um hvort framkvæmdir við virkjunina væru háðar umhverfismati enda hefði virkjunin ekki virkjanaleyfi.

Orka náttúrunnar, sem rekur Andakílsvirkjun, vill endurnýja og hækka stífluna um 2,5 metra. Einnig taka allt að 115 þúsund rúmmetra af seti úr lóninu til að auka rýmdina. Hulda er ekki sú eina sem hefur áhyggjur af áhrifum þessara framkvæmda en sveitarfélögin Skorradalshreppur og Borgarbyggð hafa lýst áhyggjum af breytingum á yfirborði Skorradalsvatns og fleiri atriðum.

„Við erum að undirbúa leyfisumsókn til sveitarfélaganna vegna framkvæmdaleyfis en framkvæmdir hefjast að fengnu leyfinu. Við viljum hefjast handa með vorinu enda um öryggismál að ræða, bæði hvað varðar endurbætur á stíflu og uppgröft á uppsöfnuðu seti,“ segir Rún Ingvarsdóttir, sérfræðingur í samskiptum hjá Orkuveitunni.

Andakílsvirkjun var reist árið 1947 og þykir komin til ára sinna. Stefnt er að því að fjarlægja gömlu stífluna og reisa nýja í staðinn.

Skipulagsstofnun úrskurðaði þann 1. júlí síðastliðinn að framkvæmdirnar væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og þyrftu því ekki að fara í umhverfismat.

Í umsögn Skorradalshrepps til Skipulagsstofnunar kemur fram að Orka náttúrunnar þurfi að sækja um byggingarleyfi núverandi mannvirkja innan marka hreppsins. „Því eins og staðan er í dag þá teljast mannvirkin vera óleyfisframkvæmdir,“ segir í umsögninni. Einnig er bent á að ekkert virkjanaleyfi sé til staðar, eins og kæra Huldu snerist um.

„Hreppurinn hefur litið svo á að virkjunin sé virkjunarleyfislaus og gert það að skilyrði að um það sé sótt en við erum ósammála því,“ segir Rún.

Bendir hún á að í skýrslu Orkustofnunar komi fram að stofnunin líti svo á að önnur leyfi virkjunarinnar séu ígildi virkjanaleyfis.

„Andakílsárvirkjun og ýmsar aðrar starfandi virkjanir voru reistar áður en kröfur um virkjunarleyfi voru lögfestar en njóta engu að síður starfsleyfa,“ segir hún. Þetta eigi við um tugi virkjana á Íslandi.

Hulda segir ákveðna stöðu komna upp eftir þennan úrskurð.

„Það er hægt að senda hvaða framkvæmdahugmyndir sem er í umhverfismatsferli, án þess að þær hafi nokkurt leyfi. Til dæmis hjá landeigendum eða sveitarfélögum, nú eða Orkustofnun,“ segir hún.