For­ráða­menn Mounta­ineers of Iceland, fyrir­tækisins sem flutti fjöru­tíu manns á Lang­jökul í gær og björgunar­sveitar­menn þurftu að bjarga í gær­kvöldi, vildu ekkert tjá sig um málið þegar Frétta­blaðið náði tali af þeim í morgun. Fyrir­tækið myndi standa fyrir rann­sókn innan­húss um hvað hefði farið úr­skeiðis. Þegar blaðamaður leitaði svara hjá fyrirtækinu, var blaðamanni sagt að „grjóthalda kjafti.“

Einn rannsóknarlögreglumaður og annar almennur lögregluþjónn fóru með björgunarsveitum á Langjökul í gærkvöldi. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurlandi og hófust skýrslutökur um leið og fólkinu hafði verið bjargað. Lögreglan á Selfossi lítur málið alvarlegum augum. Ferðamennirnir voru hvaðanæva að úr heiminum og var ekki um einn stóran hóp að ræða.

Allt kapp er lagt á að ræða við ferðamennina áður en þeir halda úr landi og næst á dagskrá er að taka skýrslur af eigendum ferðaþjónustufyrirtækisins.

Nokkur börn voru í hópnum og var það yngsta sex ára. Að sögn Brynhildar Bolladóttur hjá Rauða krossinum voru ferðamennirnir mjög þreyttir eftir aðgerðirnar og var því ákveðið að veita þeim áfallahjálp á morgun 9. janúar. Rætt hafi verið við alla og var fólkið í ágætu ásigkomulagi miðað við aðstæður.

Upphaflega stóð til að hitta ferðalangana á Selfossi en þar sem björgunaraðgerðir töfðust fóru fulltrúar Rauða krossins upp að Gullfossi þangað sem komið var með ferðalangana í hollum af Langjökli.

Ferðalangarnir hafi fengið símanúmer hjá Rauða krossinum vilji þeir hafa samband og fá aðstoð í dag.

„Grjóthaltu kjafti“

Þegar Frétta­blaðið hringdi á skrif­stofu Mounta­ineers of Iceland svaraði Ólafur Tryggva­son, leiðsögumaður hjá fyrirtækinu sem hefur svarað fyrir málið, og sagði hann að fyrir­tækið vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

„Ég segi bara ná­kvæm­lega það sem ég er að segja þér. Og hef bara ekkert meira um málið að segja,“ sagði Ólafur. Aðspurður hvort rétt­lætan­legt væri að fyrir­tækið tjáði sig ekki um málið í ljósi al­var­leika þess svaraði hann: „Við erum að skoða það og ég hef ekkert meira um þetta að segja,“ og lagði að svo stöddu á.

Þegar hringt var aftur í­trekaði Ólafur að fyrir­tækið ætlaði að skoða málið innan­húss. Á meðan stað­reyndir málsins væru ekki komnar upp á borð myndi fyrir­tækið ekki tjá sig. Sagði hann blaða­manni svo að „grjót­halda kjafti.“

Lítið skyggni og erfitt færi gerðu björgunarsveitarmönnum erfitt fyrir.
Mynd/Landsbjörg

Ekki í fyrsta skipti

Vísir hefur greint frá því að fyrir þremur árum hafi björgunar­sveitir verið kallaðar til leitar að tveimur ein­stak­lingum sem voru í ferð á vegum sama fyrir­tækis á Lang­jökli. Höfðu hjónin orðið við­skila við hóp vél­sleða­fólks á jöklinum, án þess að nokkur yrði þess áskynja. Voru þeim á endanum dæmdar skaða- og miska­bætur.

Gular veður­við­varanir voru í gildi fyrir allt landið í gær, og hafði slæmu veðri verið spáð síðan um helgina og áttu björgunar­sveitir erfitt með að komast að ferða­mönnunum. Hefur það því vakið spurningar meðal lands­manna og aðila tengdum ferða­þjónustu og hafa meðal annars miklar um­ræður spunnist um málið á Face­book-síðunni Bak­land ferða­þjónustunnar.