Þingsályktunartillaga Pírata um að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að útbúa aðgerðaráætlun um innleiðingu kjötræktar. Kjötrækt er tækni sem felur í sér að framleiða kjöt án þess að slátra þurfi dýri.
Það felst í því að í stað þess að framleiða heilt dýr er einungis ræktaður sá hluti dýrsins sem ætlunin er að nýta.
Leysir ýmis vandamál
Þetta er í fimmta sinn sem ályktunin er borin fram og segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við Fréttablaðið að öll umræða um tæknina sé jákvæð. Hann segir að tæknin geti leyst af hólmi verksmiðjuframleiðslu á kjöti auk þess að leysa ýmis vandamál sem fylgi núverandi framleiðslukerfi á matvælum.
„Verksmiðjuframleiðsla á dýrum til manneldis eða annarrar notkunar er frekar sóðaleg og orsök ýmissa vandamála. Til dæmis sýklalyfjanotkunar og þess að bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum.“

Hefur ekki áhyggjur af bændum
Hann segir að vissulega yrði skrefið úr hefðbundnum landbúnaði erfitt, og það yrði að vera pólitískur vilji til þess að taka það. Hann hefur þó ekki áhyggjur af því að bændur taki illa í hugmyndirnar.
„Það var grein í Bændablaðinu fyrir nokkrum árum þar sem talað var um ræktað kjöt og það var mjög flott grein.“
Hann telur tækifæri fyrir íslenskan landbúnað felast í því að meiri eftirspurn yrði eftir framleiðslu þeirra og að bændur gætu skapað sér meiri sérstöðu.
„Ég lít á þetta eins og vínrækt eða að brugga bjór þar sem hver bóndi væri að rækta sína útgáfu af kjúklingalæri eða nautalund.“

Kjötrækt er framtíðin
Hann segir að eflaust muni neytendur taka kjöti ræktuðu á tilraunastofu misvel. Kannanir sem hafi verið gerðar sýni að þeir séu misspenntir fyrir hugmyndinni; á meðan sumir geti ekki hugsað sér að borða þess konar kjöt geti aðrir ekki beðið.
Einn af kostunum fyrir neytendur sé að þeir geti vitað allt um vöruna sem sé ólíkt því sem sé í dag. „Við vitum ekkert endilega hvað er í grasinu sem dýrin eru að éta.“
Hann telur að kjötrækt sé framtíðin. „Ég held að eftir hundrað ár þá finnist öllum fáránlegt að vera með verksmiðjuframleiðslu á dýrum.“