Þings­á­lyktunar­til­laga Pírata um að fela sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra að út­búa að­gerðar­á­ætlun um inn­leiðingu kjöt­ræktar. Kjöt­rækt er tækni sem felur í sér að fram­leiða kjöt án þess að slátra þurfi dýri.

Það felst í því að í stað þess að fram­leiða heilt dýr er einungis ræktaður sá hluti dýrsins sem ætlunin er að nýta.

Leysir ýmis vanda­mál

Þetta er í fimmta sinn sem á­lyktunin er borin fram og segir Björn Leví Gunnars­son, þing­maður Pírata, í sam­tali við Frétta­blaðið að öll um­ræða um tæknina sé já­kvæð. Hann segir að tæknin geti leyst af hólmi verk­smiðju­fram­leiðslu á kjöti auk þess að leysa ýmis vanda­mál sem fylgi nú­verandi fram­leiðslu­kerfi á mat­vælum.

„Verk­smiðju­fram­leiðsla á dýrum til mann­eldis eða annarrar notkunar er frekar sóða­leg og or­sök ýmissa vanda­mála. Til dæmis sýkla­lyfja­notkunar og þess að bakteríur verða ó­næmar fyrir sýkla­lyfjum.“

Björn Leví telur að tækifæri felist í tækninni fyrir íslenska sauðfjárrækt.
Fréttablaðið/Magnús Hlynur

Hefur ekki á­hyggjur af bændum

Hann segir að vissu­lega yrði skrefið úr hefð­bundnum land­búnaði erfitt, og það yrði að vera pólitískur vilji til þess að taka það. Hann hefur þó ekki á­hyggjur af því að bændur taki illa í hug­myndirnar.

„Það var grein í Bænda­blaðinu fyrir nokkrum árum þar sem talað var um ræktað kjöt og það var mjög flott grein.“

Hann telur tækifæri fyrir íslenskan landbúnað felast í því að meiri eftir­spurn yrði eftir fram­leiðslu þeirra og að bændur gætu skapað sér meiri sér­stöðu.

„Ég lít á þetta eins og vín­rækt eða að brugga bjór þar sem hver bóndi væri að rækta sína út­gáfu af kjúk­linga­læri eða nauta­lund.“

Kannanir hafa sýnt að fólk er misspennt fyrir tækninni.
Fréttablaðið/GettyImages

Kjöt­rækt er fram­tíðin

Hann segir að ef­laust muni neyt­endur taka kjöti ræktuðu á til­rauna­stofu mis­vel. Kannanir sem hafi verið gerðar sýni að þeir séu mis­spenntir fyrir hug­myndinni; á meðan sumir geti ekki hugsað sér að borða þess konar kjöt geti aðrir ekki beðið.

Einn af kostunum fyrir neyt­endur sé að þeir geti vitað allt um vöruna sem sé ó­líkt því sem sé í dag. „Við vitum ekkert endi­lega hvað er í grasinu sem dýrin eru að éta.“

Hann telur að kjöt­rækt sé fram­tíðin. „Ég held að eftir hundrað ár þá finnist öllum fá­rán­legt að vera með verk­smiðju­fram­leiðslu á dýrum.“