Einkaspæjaranum Liam Brady, sem falið var að leita Jóns Þrastar Jónssonar, hafa borist nýjar vísbendingar um hvarfið. Brady staðfestir við Fréttablaðið að hann og samstarfsmaður hans séu nú að leita að einstaklingi sem gæti verið vistaður í fangelsi í tilteknu Evrópulandi. Telur hann að þessi aðili gæti veitt mikilvægar upplýsingar um hvarf Jóns og leitt rannsóknina áfram.

Frá þessu var greint í írska dagblaðinu Independent. Systir Jóns, Anna Hildur Jónsdóttir, segir að ákveðið hafi verið að fela Brady að svara fyrir rannsóknina í fjölmiðlum.

„Við erum að vinna með upplýsingar núna sem benda til þess að það sé ákveðinn aðili sem hafi vitneskju um málið,“ segir Brady sem hefur starfað sem einkaspæjari síðan 1976 og komið að mannshvarfsmálum áður.

Er Brady nú að reyna að fá viðtal við þennan einstakling en telur að það gæti tekið allt að sex vikur. Vill hann ekki segja á þessari stundu í hvaða Evrópulandi sá er.

„Ég tel góðar líkur á að þessi einstaklingur vilji tala við mig, en get ekki útilokað að hann vilji það ekki,“ segir Brady og ítrekar að fólk geti treyst á trúnað.

Sást síðast í Dublin

Jón Þröstur sást síðast í Dublin þann 9. febrúar í fyrra en hann fór til Írlands til að taka þátt í pókermóti. Rannsókn lögreglu og leit á svæðinu hefur engu skilað til þessa. Í desember var greint frá því að Anna Hildur og Jana Guðjónsdóttir, unnusta Jóns, hefðu ráðið Brady til að rannsaka hvarfið.

Er þetta það fyrsta sem heyrist af rannsókn Bradys en fjölskylda Jóns er ekki einhuga um rannsóknina. Fyrir utan þennan einstakling segir Brady mjög líklegt að fleiri hafi vitneskju um hvarf Jóns Þrastar. „Írland er ekki stórt land,“ segir hann.