Þær Valgerður Kehinde Reynisdóttir, Kristín Taiwo Reynisdóttir og Anna María Allawawi Sonde stofnuðu í febrúar á þessu ári reikninginn Antirasistarnir á Insta­gram þar sem þær fræða fólk um rasisma á Íslandi og segja frá sinni upplifun af honum.

Vinkona okkar sendi okkur skilaboð í febrúar eftir að fyrirtæki á Íslandi var með mjög rasísk skilaboð í „story“ á Instagram. Við vorum allar búnar að bæði tala um það á samfélagsmiðlum og við vini okkar og hún sendi á okkur í kjölfarið að hún hefði lengi verið með þá hugmynd í kollinum að opna Instagram-síðu þar sem hægt væri að fræða Íslendinga um rasisma,“ segir Anna María.

Eftir það stofnuðu þær hóp saman og hófu að vinna saman að efni til að birta á síðunni.

„Við vorum bara komnar með upp í kok af fólki að komast upp með alls konar skít,“ segir Anna María ákveðin.

Á síðunni má finna alls kyns efni, til dæmis um það hvernig foreldrar geta frætt börnin sín, hvað er viðeigandi á öskudag og hrekkjavöku, um forréttindablindu og hvernig fólk geti verið bandamenn. .

Litlu atvikin safnast saman

Þær segja að rasisminn geti oft verið falinn eða lítill einn og sér en þegar atvikin safnast saman þá verði það erfitt, svokölluð öráreitni [e. Micro­aggression].

„Eins og þegar það er alltaf talað við mann fyrst á ensku. Maður heyrir sterka íslenska hreiminn og svarar á íslensku og þá verða allir svo hissa á því og skipta um umræðuefni með því að spyrja hvað maður hafi lengi verið hérna,“ segir Kristín.

Við vorum bara komnar með upp í kok af fólki að komast upp með alls konar skít

Þær segja annað dæmi vera rasíska brandara en þá heyra þær reglulega og þegar þær bregðast við því þá spyr fólk hvort ekkert megi lengur.

Stelpurnar segja mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að flestar upplýsingar sem fólk vill afla sér eru aðgengilegar á netinu, í bókum eða í sjónvarpi, og að það sé gott að byrja þar áður en leitað er til litaðs fólks til að fá þau til að fræða sig um vandann. Það sé ekki þeirra hlutverk.

„Við fáum mikið af spurningum í skilaboðum sem að fólk hefði auðveldlega getað fengið svar við með því að google-a. Ég er þakklát að fólk komi til okkar að spyrja en það er líka hægt að byrja annars staðar,“ segir Valgerður.

„Spurningar eru auðvitað velkomnar en vandamálið er þessi tilætlunarsemi,“ segir Anna María og á við það að svart, eða litað, fólk eigi að fræða hvíta um rasisma og af hverju hann sé slæmur.

Tilnefndar til verðlauna

Stelpurnar eru annað hvort fæddar hér á landi eða ættleiddar aðeins nokkurra mánaða. Þær þekkja því ekkert annað en að vera Íslendingar og að tala íslensku. Tvær þeirra eru í menntaskóla og ein í grunnskóla.

Þær segja margt á döfinni hjá þeim og segja að þær bíði núna svars um norræn verðlaun sem þær voru tilnefndar til í flokki ungra frumkvöðla. Verðlaunin eru hálf milljón og að halda fyrirlestra í öðrum Norðurlöndum um síðuna. Þær fengu nýlega að vita að þær komust áfram í topp tíu og fá að vita í september hvort þær vinna, en alls fá fjórir verðlaun.

Hvað mynduð þið gera við svona peninga og tækifæri?

„Okkur langar mikið að halda fundi fyrir litað fólk, eða fólk af erlendum uppruna. Fólk gæti komið þangað og sagt sögur sínar og deilt reynslunni af því að vera litaður á Íslandi. Það er svo gott að tala við einhvern sem er að ganga í gegnum það sama og þú. Það geta verið svo margir sem eru að tengja við mann,“ segir Kristín.

Anna María tekur undir þetta.

„Manni líður alltaf eins og maður sé einn því maður er í svo miklum minnihlutahópi.“

Dreymir um hlaðvarp

Þá dreymir þær einnig um að vera með hlaðvarp og sjá fyrir sér að bjóða gestum að spjalla við þær og geta þannig snert á ýmsum málefnum og náð til fleira fólks.

Þær telja að það þurfi verulegt átak í skólakerfinu til að ávarpa rasisma almennilega og að það þurfi að tryggja að það fái allir fræðslu, bæði nemendur og starfsfólk skólanna.

„Væri ekki betra að læra um það en víkinga á 13. öld?“ spyr Anna María og hlær.

Dæmi um færslu sem er hægt að finna á síðunni.
Myndir/Antirasistarnir

Íslenskur húmor oft vandamál

Stelpurnar segja að vandamálið í orðræðu og menningu sé að nokkru leyti hægt að rekja til húmors íslenskra vinsælla grínista og segja að húmor þeirra sé að miklu leyti byggður á rasisma, kvenhatri, hómófóbíu og fitufordómum.

„Það er svo mikið grunnurinn hjá mjög stórum parti unglinga og það er erfitt að hlæja að því. Oft er kannski um að ræða einhverja satíru hjá grínistanum en krakkarnir gera sér ekki grein fyrir því og taka gríninu bókstaflega. Eins og Næturvaktin, þar er verið að gera grín að því hversu heimskuleg svona mál eru en margir krakkar taka því bókstaflega,“ segir Anna María.

„Að það sé fyndið að svart fólk sé eitthvað skrítið,“ segir Kristín.

Þær segja að við aðstæður þar sem er gert grín að svörtum eða lituðum sé oft erfitt að bregðast ekki öðruvísi við en að hlæja með af hræðslu við útskúfun, því þær tilheyri svo miklum minnihlutahópi.

Stúlkurnar telja að mörgum finnist óþægilegt að ræða um rasisma.

„Við vorum tvær svartar í grunnskóla og reyndum að standa með okkur sjálfum en á endanum vorum við bara uppgefnar á þessu og nenntum þessu ekki. ,“ segir Kristín

Það er svo mikið grunnurinn hjá mjög stórum parti unglinga og það er erfitt að hlæja að því. Oft er kannski um að ræða einhverja satíru hjá grínistanum en krakkarnir gera sér ekki grein fyrir því og taka gríninu bókstaflega. Eins og Næturvaktin, þar er verið að gera grín að því hversu heimskuleg svona mál eru en margir krakkar taka því bókstaflega

Foreldrar og börn tali saman

Haldið þið að fólki finnist almennt óþægilegt að ræða þessa hluti?

„Já, ég held líka að mörgum líði eins og þetta sé ekki eitthvað sem þau ættu að tala um, en þetta er eitthvað sem allir foreldrar eiga að ræða við börnin sín,“ segir Valgerður.

„Þetta er óþægileg umræða, en hún á líka að vera það. Við þurfum að upplifa þetta og stundum þarf fólk bara að taka þetta á kassann,“ segir Anna María.

Spurðar hvernig jafnaldrar þeirra hafa tekið í verkefnið segja þær viðbrögðin misjöfn en að þær hafi tekið eftir því að þær séu að vekja athygli. Sumum finnist verkefnið óþarfi en að öðrum finnist það flott.

„Það vantar hjá jafnöldrum okkar að gera eitthvað í þessu. Það er ekki nóg að setja eitthvað í story og gera svo ekkert. Það eru svo margir sem settu svartan kassa á Instagram og svo hefur ekkert meira heyrst í þeim,“ segir Kristín.

„En þetta er ekki búið. Svo langt frá því,“ segir Anna María.

Hægt er að bóka þær til að halda fyrirlestra í skólum eða í frístundamiðstöðvum á antirasistarnir@gmail.com eða með því að senda þeim skilaboð á Instagram.