Prófanir á hraunrennslisvörnum í Meradölum út frá núverandi gosi í Geldingadölum eru nýttar til að afla reynslu og þekkingar á uppbyggingu varnargarða sem gæti þurft að byggja síðar til að verja mikilvæga innviði eða íbúðabyggð á Reykjanesskaga.

Björn Oddsson jarðeðlisfræðingur kom á fund bæjarráðs í vikunni til að fara yfir stöðu mála. Var lagt fram minnisblað frá Verkís, Eflu og Háskóla Íslands um prófanir á hraunrennslisvörnum.

Bæjarráð Grindavíkur leggur mikla áherslu á að þær aðstæður sem nú eru til staðar í Meradölum verði tafarlaust nýttar til að framkvæma prófanir á hraunrennslisvörnum að veittum tilskildum leyfum til framkvæmdanna, segir í fundargerð bæjarráðs.