Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsti yfir ánægju með hugmyndina en óskaði eftir frekari upplýsingum þegar stjórnin tók fyrir fyrirspurn um að reisa fljótandi gufubað í Ísafjarðarhöfn í vikunni. Það voru þau Elena Dís Víðisdóttir, Gauti Geirsson, Óli Rafn Kristinsson og Tinna Rún Snorradóttir, sem sendu inn fyrirspurnina en Gauti segir þetta vera vinsæla hugmynd í Skandinavíu.
„Við erum tvö pör sem erum nýflutt aftur heim á Vestfirðina. Annað parið var í Danmörku og hitt í Noregi, og þar hefur þessi hugmynd verið að ryðja sér til rúms. Þetta blandar skemmtilega saman gufubaði og sjósundi. Við sjáum þarna tækifæri til að sameina þetta á skemmtilegan máta fyrir samfélagið,“ segir Gauti í samtali við Fréttablaðið, þegar hann er spurður út í fyrirspurnina og tekur undir að þetta sé dæmi um að slá tvær flugur í einu höggi.
Það er aðeins eitt gufubað á Ísafirði og skiptist eftir dögum hvort að það sé til boða fyrir karlkyns eða kvenkyns gesti sundhallarinnar. Fljótandi gufubað yrði því kærkomin viðbót, hvort sem um ræðir á heitum sumardögum eða á vetrardögum, eftir að hafa rennt sér niður skíðabrekkurnar á Vestfjörðum.
„Það kom tillaga um að staðsetja þetta við skútuhöfnina sem er skemmtilegt svæði. Það myndi koma með nýtt aðdráttarafl í höfnina og auka lífið í miðbænum. Uppleggið er að þetta sé opið allan ársins hring, bæði fyrir heimamenn og ferðamenn,“ segir Gauti sem telur að heildarkostnaðurinn sé undir þrjátíu milljónum.
„Þetta eru líklegast einhverjar 25 milljónir, en við erum að skoða hvaða möguleikar eru til staðar til að fjármagna þetta.“
Gauti tekur undir að þetta sé í takt við það sem nútímaferðamaðurinn vill.
„Það er aukið krydd að hafa möguleikann á sjósundi inni í þessu. Svo yrði þetta mjög gott á grammið (Instagram) sem er ekkert verra. Á tímum samskiptamiðlaferðamennsku skiptir það miklu máli,“ segir hann léttur í lund.
Tillagan hefur vakið athygli á Ísafirði og er ekki að heyra annað en að Gauti sé tiltölulega bjartsýnn á að hún verði samþykkt.
„Hafnarstjórnin var mjög áhugasöm og hugmyndin virðist vera að fá meðbyr. Eftir að þetta kom inn í fundargerðirnar eru margir farnir að spyrjast fyrir um þetta.“