Bæjar­ráð Akur­eyrar­bæjar lagði fram bókun á fundi sínum í morgun um mikil­vægi þess að of­beldi gegn börnum á barna­heimilinu á Hjalt­eyri á árunum 1972 til 1979 verði rann­sakað og að rann­sóknin verði bæði ítar­leg og opin­ber.

Fram kemur í bókuninni að árið 1977 hafi þá­verandi fé­lags­mála­stjóri Akur­eyrar óskað form­lega eftir því við Barna­verndar­ráð Ís­lands að að­búnaður barna á heimilinu yrði kannaður en að þeim á­bendingum hafi ekki verið sinnt, og í raun komið í veg fyrir að slík at­hugun færi fram.

„Af frá­sögnum fólks sem dvaldi í barn­æsku á heimilinu má hins vegar ljóst vera að grunur fé­lags­mála­stjóra Akur­eyrar um slæman að­búnað barna í Richards­húsi var á rökum reistur,“ segir í bókun bæjar­ráðsins.

Þá er það í­trekað að Akur­eyrar­bær hafi ekki komið að rekstri heimilisins á neinn hátt en að barna­verndar­nefnd sveitar­fé­lagsins hafi á sínum tíma sent börn þangað bæði til lengri eða skemmri dvalar.

„Bæjar­ráð Akur­eyrar­bæjar telur brýnt að leitt verði í ljós hið fyrsta hvað fram fór á heimilinu og hvers vegna var látið hjá líða að bregðast við beiðni fé­lags­mála­stjóra Akur­eyrar um skoðun á að­búnaði barna þar,“ segir að lokum.

Bókunina er hægt að lesa hér í heild sinni.