Stjórnmálaflokkur Maóra, frumbyggja á Nýja-Sjálandi, hefur lagt til að nafni landsins verði breytt. Flokkurinn vill að landið beri nafnið Aotearoa, sem það kallast á Te Reo Māori tungumáli Maóra

„Það er löngu orðið tímabært að Te Reo Māori fái sinn réttláta sess sem fyrsta og opinbera tungumál landsins. Við erum land í Pólýnesíu, við erum Aotearoa,“ sögðu Rawiri Waititi og Debbie Ngarewa-Packer, leiðtogar Te Pāti Māori-flokksins í yfirlýsingu sem fylgdi undirskriftasöfnun sem þau hafa hrint af stað.

„Aotearoa er nafn sem mun sameina frekar en sundra þjóðinni. Aðrir freista þess að nota það til að reka fleyg á milli okkar en það er fyrir okkur öll, þar sem forfeður okkar samþykktu að við fengjum öll að lifa í landinu,“ sagði Waititi. „Nýja-Sjáland er hollenskt nafn. Meira að segja Hollendingar hafa breytt nafninu þeirra - úr Hollandi í Niðurlönd, í guðanna bænum!“

Vilja endur­heimta tungu­málið

Auk þess að fara fram á að nafni landsins verði breytt, er þess krafist að hið opinbera finni og noti öll upprunleg nöfn af Te Reo Māori-tungu fyrir borgi, bæi og örnefni á næstu fimm árum.

Mikil fækkun hefur orðið í fjölda Maóra sem geta talað tungu sína og talið er að einungis 20 prósent þeirra geti tjáð sig á Te Reo Māori og segir flokkurinn að það sé á ábyrgð stjórnvalda að færa tungumálið aftur til vegs og virðingar. Til þess þurfi að gera það aðgengilegt, meðal annars með að nota það opinberlega.

Embættismenn, stjórnmálamenn og fyrirtæki á Nýja-Sjálandi nota Aotearoa í sífellt meiri mæli og forsætisráðherrann Jacinda Arden hefur sagt að það væri jákvætt. Ekki hafi þó verið rætt um af stjórnvöldum að breyta nafninu formlega.

Jacinda Arden forsætisráðherra Nýja-Sjálands.