„Það er vont þegar áætlanir standast ekki,“ sagði Einar Þorsteinsson á kynningarfundi um leikskólamál í borginni í hádeginu og að ákveðið hafi verið strax og ljóst var að ekki myndi takast að innrita 12 mánaða börn, að bregðast við. Hann sagðist ánægður með viðbrögð embættismanna, stjórnmálamanna og annarra sem komu að málinu og að það væri óviðunandi að foreldrar þyrftu að koma í ráðhúsið til að mótmæla.

Hann sagði fjölmargar ástæður fyrir seinkun og töfum en að foreldrar hafi lítinn áhuga á því.

Skúli Helgason, formaður stýrihópsins Brúum bilið, kynnti nýjar tillögur borgarráðs um aukin úrræði í leikskólamálum á fundi í ráðhúsinu í dag. Tillögurnar alls eru sex.

Fyrsta tillaga snýr að því að opna Ævintýraborgir á Nauthólsvegi fyrr og opna í fyrri hluta september og aðlögun klárast á einum mánuði. Um miðjan október verði öll börn komin inn. Á meðan útisvæðið er klárað verður Öskjuhlíðin nýtt.

Önnur tillaga snýr að nota laust húsnæði í borginni eins og til dæmis Korpuskóli til að mæta þörfum þeirra sem ekki eru með neitt pláss og þeim foreldrum svo boðið að sækja um flutning og vera á þeim biðlista í staðinn. En fá þá vistun strax. Þá nefndi Skúli einnig svæði sem heitir Bakki og hann sagði það tilbúið og að það stæði til boða. Innan þessarar tillögu er líka lagt til að nota frístundaheimili sem eru laus fyrri hluta dags og starfsfólkið laust. Það væri þá hægt að vera með úrræði þar.

Skúli kynnti tillögurnar en hann er formaður stýrihóps um að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Fréttablaðið/Ernir

Níu mánuðir í leikskóla í Fossvogi

Þriðja tillaga snýr að því að setja upp nýjan leikskóla í Fossvogi á lóð sem að Reykjavík var að kaupa. Þarna segir Skúli að möguleiki sé að setja upp húsnæði eins og á Eggertsgötu þar sem væri hægt að taka á móti 100 börnum. Verktími er áætlaður níu mánuðir og væri því til um mitt næsta ár.

Fjórða tillaga er stækkun Steinahlíðar og að þar taka við fleiri börnum en eru núna og hefur verið lýst yfir vilja um samstarf. Viðræður eru ekki hafnar og er tillagan sett fram með þeim fyrirvara.

Fimmta tillagan sneri að dagforeldrakerfinu sem að þau vilja að sé valkostur og ætlar borgin að auka við niðurgreiðslu og styrki og nefndi stofnstyrki og fræðslustyrki. Hann sagði að þessa hugmynd ætti eftir að fara yfir á fjármálasviði en að það færi strax í vinnslu.

Sjötta tillagan, og sú síðasta, er að verklag skólainnritunar verði bætt og upplýsingagjöf bætt. Hluti af því er að auka samvinnu við sjálfstætt starfandi leikskóla til að koma í veg fyrir tvítalningu.