Hluti íbúa á Suðurlandi vill skoða hvort rétt sé að fara í framkvæmdir við nýja höfn austan Víkur. Hugmyndin tengist áformum um útflutning á gríðarlegu magni af vikri. Vík er eina hafnlausa sjávarpláss landsins.

Fyrirtækið EP Power Minerals leitar leiða til að fá leyfi til að flytja mikið magn af vikri eða gjalli frá námum við Hafursey sem er í landi Kolbeinshöfða.

Fyrirtækið gaf ekki kost á viðtali um áformin að sinni en ef mat á umhverfisáhrifum verður jákvætt er til skoðunar að flytja vikurinn frá Hafursey til Þorlákshafnar og skipa efninu þar upp í flutningaskip þar sem siglt yrði með vikurinn í þeim tilgangi meðal annars að nýta gjallið sem íblöndunarefni í sement.

Forskoðun bendir til að gjallið í námunni gæti dugað í útflutning allt að heila öld.

Hluti heimamanna á Suðurlandi sem hlynntir eru áformunum telur að hægt væri að koma í veg fyrir stórfellda umferð flutningabíla um þjóðveginn með því að láta gera nýja höfn nálægt námasvæðinu. Höfnin fengi þó fleiri hlutverk.

Vík hefur í gegnum tíðina verið kölluð hafnleysa, enda eina sjávarþorp landsins þar sem aldrei hefur verið höfn, að sögn Einars Freys Elínarsonar, oddvita í Mýrdalshreppi.

Hann er í hópi áhugasamra íbúa um hafnargerð og þegar Fréttablaðið tók hann tali á Suðurlandi í vikunni benti hann á að ekki væru bara atvinnuleg tækifæri í þessum hugmyndum heldur einnig umhverfisleg.

„Þessir flutningar á vikrinum gætu orðið mjög óumhverfisvænir og þess vegna hefur sveitarfélagið lagt til að skoðað verði að gera nýja höfn á suðurströndinni,“ segir Einar. Hann tekur fram að hugmyndirnar miðist ekki við að hið opinbera standi straum af gerð nýrrar hafnar.

Einar telur enga ástæðu til að ætla að vandræðagangurinn við Landeyjahöfn muni endurtaka sig með nýrri höfn við Vík. Hægt sé að bregðast við sandburði með tæknilegum útfærslum.

„Maður skilur að mörgum þyki það langsótt hugmynd að gera hér nýja höfn en áður en Jökulsá var brúuð héldu líka margir að það yrði ómögulegt,“ segir Einar.

Einhæfni atvinnulífs er vandamál í Mýrdalshreppi að sögn Einars. Íbúar þurfi að vera vakandi fyrir fleiri tækifærum þótt blómleg ferðaþjónusta sé mikil blessun.

Hann segir að rætt hafi verið um nýja höfn við Dyrhólaey alla síðustu öld eða þangað til hún var friðlýst.