Bæjarfulltrúar Fjallabyggðar á utanverðum Tröllaskaga eru orðnir seinþreyttir á slæmu vegasambandi á milli Skagafjarðar og bæjarins annars vegar og milli hans og Eyjafjarðar hins vegar. Löngu tímabært sé að huga að nýjum jarðgöngum í báðum tilvikum.

Í ályktun sem samþykkt var í bæjarstjórn á miðvikudag segir að Fjallabyggðargöng og samgöngubætur séu brýnasta hagsmunamál íbúa Fjallabyggðar og Mið-Norðurlands.

Núverandi vegir, til og frá bænum, séu ekki boðlegir og takmarki möguleika heimamanna á að stuðla að öryggi vegfarenda og íbúa, auka samvinnu á milli sveitarfélaga, ásamt því að styrkja og stækka atvinnusvæði.

Vegagerðin hafi nú þegar gefið út skýrslu um jarðgöng á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði. Núverandi leið liggi um snjóflóðahættusvæði ásamt því að vera á jarðsigssvæði. Þessi staða hefur leitt til tíðra lokana og mun leiða til tíðari lokana í framtíðinni.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar beinir því einnig til ráðherra samgöngumála og Vegagerðarinnar að setja nauðsynlega fjármuni til rannsókna þannig að hægt sé að ákveða legu nýrra jarðganga á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.

Múlagöng séu barn síns tíma og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla liggi á þekktu snjóflóðahættusvæði. Mikilvægt sé að fara í þessa forvinnu til þess að tryggja að þessi göng komist á samgönguáætlun við næstu endurskoðun hennar.