Stjórn­völd hér á landi ætla sér að hefta veru­lega að­gengi barna undir 18 ára aldri að klámi með rót­tækum raf­rænum lausnum sem unnið er að í mennta­mála­ráðu­neytinu. Til skoðunar er að nota raf­ræn skil­ríki til að loka alveg á klám fyrir ó­lög­ráða ein­stak­linga. Frá þessu var greint í kvöld­fréttum Stöðvar 2.

Að­gengi að klámi hefur senni­lega aldrei verið meira en nú en hver sem er getur nálgast klám­síður á inter­netinu nánast fyrir­hafnar­laust. Þetta mikla að­gengi að klámi í gegnum síma og snjall­tæki er talið ein megin­á­stæða þess að sprenging hefur orðið á klám­notkun ungra drengja á undan­förnum árum.

Meðal­aldur þegar börn sjá klám í fyrsta sinn er kominn niður í ellefu ár á Ís­landi. Fjórðungur drengja er orðinn reglu­legur neytandi að klámi í áttunda bekk en 65 prósent eru orðnir klám­neyt­endur í mennta­skóla. Sér­fræðingar telja þetta hafa al­var­legar af­leiðingar í för með sér.

Huga fyrst og fremst að öryggi barna

„Það er auð­vitað þannig að við erum fyrst og fremst að huga að öryggi barna. Við þurfum auð­vitað að at­huga ná­kvæm­lega hvernig það lítur út varðandi lögin og annað slíkt,“ segir Lilja Dögg Al­freðs­dóttir mennta­mála­ráð­herra í sam­tali við frétta­stofu Stöðvar 2.

Ráð­herra lítur einnig til Norður­landa­ráðs hvað þetta varðar, en þeim til­mælum hefur verið beint til nor­rænu ráð­herra­nefndarinnar að löndin láti kanna hvaða mögu­leikar eru færir til að stað­festa aldur klám­not­enda með einum eða öðrum hætti.

Næsta skref verður að skipa starfs­hóp með full­trúum dóms­mála­ráðu­neytis, fé­lags- og barna­mála­ráðu­neytis, heil­brigðis­ráðu­neytis, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráðu­neytis, sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga og mennta- og menningar­mála­ráðu­neytis, sem myndi semja fram­kvæmda­á­ætlun um verk­efnið.