Jenna Ryan, fast­eigna­sali frá Texas sem fór með einka­þotu til Was­hington til að taka þátt í árás stuðnings­manna Donalds Trumps á þing­húsið, hefur beðið frá­farandi for­setann að veita sér náðun. Hún var hand­tekin af banda­rísku al­ríkis­lög­reglunni (FBI) síðasta föstu­dag fyrir þátt­töku sína í á­rásinni en henni finnst hún ekki eiga skilið að fara í fangelsi.

„Við eigum öll skilið náðun,“ sagði Jenna í sam­tali við frétta­stofu CBS. „Ég fer lík­lega í fangelsi. Mér finnst ég ekki eiga það skilið. Ég bið því for­setann að veita mér náðun.“

Trump hefur verið á­kærður til em­bættis­missis fyrir að hvetja stuðnings­menn sína til að ráðast á þing­húsið þar sem fimm létu lífið, þar af einn lög­reglu­maður. Jenna segir að með þátt­töku sinni í á­rásinni hafi hún að­eins verið að sýna ást sína á föður­landinu. „Ég hlustaði á for­setann minn sem sagði mér að fara að þing­húsinu.“

Í for­seta­tíð sinni hefur Trump verið dug­legur að náða pólitíska stuðnings­menn sína. Fleiri sem tóku þátt í á­rásinni á þing­húsið hafa farið fram á það sama og Jenna. Lög­maður Jacob Chansl­ey, sem fjöldi manns um heim allan þekkir nú af myndum af á­rásinni þar sem hann var ber að ofan með hyrndan loð­hatt á hausnum, hefur til dæmis sagt að Trump ætti að „gera það eina rétta í stöðunni og náða alla frið­sæla stuðnings­menn hans sem sam­þykktu boð hans“. Það er boð um að ráðast inn í þing­húsið.