Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu ræða að koma á stefnuráði fyrir byggðasamlögin sem gæti hafið störf í október. Þar muni 20 fulltrúar eiga sæti, fimm frá Reykjavík og þrír frá öðrum sveitarfélögum. Borgarstjóri fari með formennsku í ráðinu ásamt stjórnarformanni Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, SSH.

„Stefnan er að byrja á Sorpu, síðan Strætó og sjá hvernig sé vinna gengur áður en fleiri málaflokkar verða skoðaðir,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH. Auk þeirra reka sveitarfélögin saman slökkvilið og skíðasvæði.

Páll segir ráðið veita möguleika á breiðari þátttöku eigendanna að stefnumótun. Hugsunin sé að minnihlutarnir fái sæti við borðið. Tillögur ráðsins fari inn á aðalfundi byggðasamlaganna til samþykktar.

„Þetta flækir mögulega ferlið en það er mikilvægt að hafa virka umræðu um stefnumótun í ákveðnum málaflokkum innan sveitarstjórnanna sem eru eigendurnir,“ segir Páll. Ýmis stór verkefni séu fram undan, bæði í úrgangsmálunum hjá Sorpu og hin nýja Borgarlína hjá Strætó. Vandræði Sorpu með Gas- og jarðgerðarstöðina GAJA sé ekki kveikjan að stofnun ráðsins.