Keppni í Síminn Cyclo­thon hefst í dag en á morgun hefst liðakeppni hjólreiðanna. Margir af fremstu hjólreiðamönnum landsins munu leiða saman hesta sína og hjóla fyrir hönd Ljóssins, endurhæfingarmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda.

Í átta manna liði Ljóssins eru Ingvar Ómarsson, sem varð um síðustu helgi Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, Hafsteinn Ægir Geirsson, sem varð í fjórða sæti á Íslandsmótinu, Kristinn Jónsson, sem varð Íslandsmeistari í U-23 ára flokki, og Páll Elís, sem varð í öðru sæti í flokki 50 ára og eldri. Auk þeirrra eru Hákon Hrafn Sigurðsson, Jón Ingi Sveinbjörnsson, Auðunn Gunnar Eiríksson og Þorsteinn Hallgrímsson í liðinu.

Markmið Ljóssins með þátttökunni í Síminn Cyclothon er að varpa ljósi á endurhæfingu krabbameinsgreindra og þá staðreynd að ungir karlmenn eru líklegri en aðrir hópar til að sleppa endurhæfingu þegar þeir greinast með krabbamein.

„Þegar það var komið að máli við mig og Þorstein Hallgrímsson um að leiða þetta verkefni þá langaði okkur að athuga hvort fremstu hjólreiðamenn landsins væru til í að taka þátt í þessu með okkur.

Ég líki þessu svolítið við að tveir skrifstofumenn séu á leið á firmamót í fótbolta og þeir hringja í Gylfa Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson og fá sér svo sæti á bekknum sjálfir,“ segir Auðunn Gunnar um verkefnið.

Ég líki þessu svolítið við að tveir skrifstofumenn séu á leið á firmamót í fótbolta og þeir hringja í Gylfa Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson og fá sér svo sæti á bekknum sjálfir.

„Okkur finnst mjög mikilvægt að minna á þá frábæru starfsemi sem Ljósið býður upp á. Það virðist vera þannig að það eimi enn þá eftir af gömlu karlmennskunni og karlmenn veigri sér við að nýta sér þá aðstoð sem er í boði eftir að þeir greinast með krabbamein.

Starfið í Ljósinu er til fyrirmyndar og fyrir utan að það hafi jákvæð áhrif á líkamlega heilsu að mæta í íþróttaþjálfunina þar hefur það ekki síður góð áhrif á andlegu líðanina. Við viljum hvetja unga karlmenn sem greinast með krabbamein til að kíkja á hvað Ljósið býður upp á,“ segir hann.

Verkefnið nýtur einnig stuðnings Hugleiks Dagssonar, sem hefur af þessu tilefni gefið út fimm teikningar sem sérstaklega eru tileinkaðar hugarfari karlmanna. Eitt af verkunum hefur ratað á bol sem kemur í sölu í takmörkuðu magni á næstu dögum. Yfirskrift verkefnisins er Annað en þú heldur, sem vísar til ummæla ungra karlmanna sem sótt hafa endurhæfinguna.

„Ég og Þorsteinn verðum svona meira í klappliðinu og okkar hlutverk er einna helst að sjá til þess að allt sé í góðu hjá hjólreiðamönnunum og halda uppi stuðinu í bílnum. Við erum algerir afreksmenn á því sviði. Okkar markmið er að vinna, það er ekkert flóknara en það,“ segir Auðunn Gunnar.