Vyacheslav Volodin, forseti Dúmunnar, rússneska þjóðþingsins, vill meina Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, varaþingflokksformanni Pírata, að sækja Rússland heim. Ástæðan er nýsamþykkt skýrsla hennar um stöðu Krímtatara og alvarleg mannréttindabrot á Krímskaga.
Þórhildur Sunna var formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins og flutti framsögu um skýrsluna á Evrópuráðsþinginu þann 23. júní síðastliðinn. Í skýrslunni er lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu Krímtatara. Samþykkti þingið skýrslu Þórhildar og fer það fram á rannsókn á „meintum morðum, mannránum, pyntingum og annarri ómannúðlegri meðferð sem Krímtatarar hafa mátt sæta.“
Þá er þess krafist í skyrslunni að flutningur fanga frá Krímskaga til Rússlands verði stöðvaður og þeim sem sakfelld hafa verið fyrir brot á rússneskum lögum á Krímskaga, samviskuföngum þar með talið, verði sleppt úr haldi. Evrópuþingið krefst þess jafnframt að Rússar stöðvi hernám sitt á Krímskaga og tryggi réttindi Tatara sem þar búa.

Forseti rússneska þingsins kvartaði við Steingrím
Í rússneska miðlinum Interfax er haft eftir Volodin að Dúman hafi fullan rétt til að banna Þórhildi Sunnu að koma til Rússlands vegna skýrslunnar, enda sé hún byggð á fölskum upplýsingum. Segist Volodin ætla að ræða skýrsluna við kollega sinn, Steingrím J. Sigfússon, og leggja fyrir rússneska utanríkisráðuneytið tillögu um að meina henni að koma til Rússlands.
Þórhildur segir efnislega gagnrýni Volodin á skýrsluna beinlínis ranga. „Við eigum eftir að sjá hvort eitthvað verði úr þessu sem hann segir,“ segir hún. Rússneskir fulltrúar hafi áður hótað að meina henni að koma til landsins vegna annarrar skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi.
Aðspurð um mögulega Rússlandsferð í náinni framtíð, svarar Þórhildur Sunna játandi. „Það er náttúrulega hluti af mínu umboði sem sérstakur skýrslugjafi um pólitíska fanga í Rússlandi,“ segir hún og bætir við: „Þeim ber skylda til að hleypa mér inn í landið þegar ég óska eftir því, ef nefndin mín samþykkir það,“ segir Þórhildur.
Hún segist aldrei hafa heyrt neitt þessu líkt frá svo háttsettum aðila í Rússlandi áður.
Volodin hefur rætt um Þórhildi Sunnu við Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, að því er fram kemur á vef Alþingis. Í svari Steingríms til Volodin segir að „rétt væri að beina athugasemdum að Evrópuráðsþinginu sjálfu, en ekki skýrsluhöfundi, enda hefði skýrslan verið rædd þar og samþykkt með afgerandi meirihluta viðstaddra þingmanna.“
Það kemst enginn á Krimsskagann
„Þeir gagnrýna mig líka fyrir að hafa ekki farið á Krímsskaga. Það kemst enginn á Krímskagann. Meira að segja sérstakur mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins getur ekki farið á Krímsskagann til að kynna sér aðstæður þannig það er ekki allskostar sanngjarnt að beina því að mér sérstaklega,“ segir Þórhildur Sunna.
Hún segir að við vinnslu skýrslunnar hafi hún talað við fjölda fólks. „Við höfum fundað með fulltrúum frá Rússlandi, Krímskaga, fulltrúum krímverskra tatara, fulltrúum mannréttindasamtaka sem vinna þarna og mjög mörgum hlutaðeigandi sem hafa gefið okkur mjög ríkulegar og ítarlegar upplýsingar.“
Skýrslan hefur verið í vinnslu í þrjú ár segir Þórhildur Sunna en hún tók við henni af öðrum fulltrúa Evrópuráðsins eftir að hann hvarf af vettvangi ráðsins. Skýrslan hafi því verið lengi í vinnslu og það liggi mikil vinna að baki henni.
„En hvað varðar heimsókn til Rússlands er Krímskaginn náttúrulega á þessu gráa svæði vegna þess að hann tilheyrir Úkraínu en er undir yfirráðum Rússa. Sem þýðir að ef Rússar bjóða okkur þá lendum við í vandræðum gagnvart Úkraínu og ef Úkraínumenn bjóða okkur þá getum við ekki farið þangað. Það er ekki búið að leysa þennan vanda gagnvart Evrópuráðinu sem slíku. Þannig ef mannréttindafulltrúinn getur ekki farið þá get ég ekki farið,“ segir Þórhildur Sunna.
Öðru máli gegni hins vegar um skýrslu hennar um pólitíska fanga í Rússlandi sem er í vinnslu. „Þar ætti ég að fara í vettvangsheimsókn og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að sækjast efitr því í haust,“ segir hún og bætir við: „Þá er að sjá hvort þeir standi við stóru orðin eða hleypi mér inn í landið eins og þeim ber lagaleg skylda til þess að gera til þess einmitt að ég geti kynnt mér mér aðstæður pólitískra fanga í Rússlandi.“