Vyacheslav Volodin, for­seti Dúmunnar, rúss­neska þjóð­þingsins, vill meina Þór­hildi Sunnu Ævars­dóttur, varaþing­flokks­for­manni Pírata, að sækja Rúss­land heim. Á­stæðan er ný­sam­þykkt skýrsla hennar um stöðu Krím­tatara og al­var­leg mann­réttinda­brot á Krím­skaga.

Þór­hildur Sunna var for­maður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins og flutti fram­sögu um skýrsluna á Evrópu­ráðs­þinginu þann 23. júní síðast­liðinn. Í skýrslunni er lýst yfir þungum á­hyggjum af stöðu Krím­tatara. Sam­þykkti þingið skýrslu Þór­hildar og fer það fram á rann­sókn á „meintum morðum, mann­ránum, pyntingum og annarri ó­mann­úð­legri með­ferð sem Krím­tatarar hafa mátt sæta.“

Þá er þess krafist í skyrslunni að flutningur fanga frá Krím­skaga til Rúss­lands verði stöðvaður og þeim sem sak­felld hafa verið fyrir brot á rúss­neskum lögum á Krím­skaga, sam­visku­föngum þar með talið, verði sleppt úr haldi. Evrópu­þingið krefst þess jafn­framt að Rússar stöðvi her­nám sitt á Krím­skaga og tryggi réttindi Tatara sem þar búa.

Vyacheslav Volodin, forseti Rússneska þingsins og forsetinn Vladimir Putin ræða málin í Dúmunni.
Fréttablaðið/Getty.

Forseti rússneska þingsins kvartaði við Steingrím

Í rúss­neska miðlinum Inter­fax er haft eftir Volodin að Dúman hafi fullan rétt til að banna Þór­hildi Sunnu að koma til Rúss­lands vegna skýrslunnar, enda sé hún byggð á fölskum upp­lýsingum. Segist Volodin ætla að ræða skýrsluna við kollega sinn, Stein­grím J. Sig­fús­son, og leggja fyrir rúss­neska utan­ríkis­ráðu­neytið til­lögu um að meina henni að koma til Rúss­lands.

Þór­hildur segir efnis­lega gagn­rýni Volodin á skýrsluna bein­línis ranga. „Við eigum eftir að sjá hvort eitt­hvað verði úr þessu sem hann segir,“ segir hún. Rúss­neskir full­trúar hafi áður hótað að meina henni að koma til landsins vegna annarrar skýrslu um pólitíska fanga í Rúss­landi.

Að­spurð um mögu­lega Rúss­lands­ferð í náinni fram­tíð, svarar Þór­hildur Sunna játandi. „Það er náttúru­lega hluti af mínu um­boði sem sér­stakur skýrslu­gjafi um pólitíska fanga í Rúss­landi,“ segir hún og bætir við: „Þeim ber skylda til að hleypa mér inn í landið þegar ég óska eftir því, ef nefndin mín sam­þykkir það,“ segir Þór­hildur.

Hún segist aldrei hafa heyrt neitt þessu líkt frá svo hátt­settum aðila í Rúss­landi áður.

Volodin hefur rætt um Þór­hildi Sunnu við Stein­grím J. Sig­fús­son, for­seta Al­þingis, að því er fram kemur á vef Al­þingis. Í svari Stein­gríms til Volodin segir að „rétt væri að beina at­huga­semdum að Evrópu­ráðs­þinginu sjálfu, en ekki skýrslu­höfundi, enda hefði skýrslan verið rædd þar og sam­þykkt með af­gerandi meiri­hluta við­staddra þing­manna.“

Það kemst enginn á Krimsskagann

„Þeir gagn­rýna mig líka fyrir að hafa ekki farið á Kríms­skaga. Það kemst enginn á Krím­skagann. Meira að segja sér­stakur mann­réttinda­full­trúi Evrópu­ráðsins getur ekki farið á Kríms­skagann til að kynna sér að­stæður þannig það er ekki alls­kostar sann­gjarnt að beina því að mér sér­stak­lega,“ segir Þór­hildur Sunna.

Hún segir að við vinnslu skýrslunnar hafi hún talað við fjölda fólks. „Við höfum fundað með full­trúum frá Rúss­landi, Krím­skaga, full­trúum krím­verskra tatara, full­trúum mann­réttinda­sam­taka sem vinna þarna og mjög mörgum hlutað­eig­andi sem hafa gefið okkur mjög ríku­legar og ítar­legar upp­lýsingar.“

Skýrslan hefur verið í vinnslu í þrjú ár segir Þór­hildur Sunna en hún tók við henni af öðrum full­trúa Evrópu­ráðsins eftir að hann hvarf af vett­vangi ráðsins. Skýrslan hafi því verið lengi í vinnslu og það liggi mikil vinna að baki henni.

„En hvað varðar heim­sókn til Rúss­lands er Krím­skaginn náttúru­lega á þessu gráa svæði vegna þess að hann til­heyrir Úkraínu en er undir yfir­ráðum Rússa. Sem þýðir að ef Rússar bjóða okkur þá lendum við í vand­ræðum gagn­vart Úkraínu og ef Úkraínu­menn bjóða okkur þá getum við ekki farið þangað. Það er ekki búið að leysa þennan vanda gagn­vart Evrópu­ráðinu sem slíku. Þannig ef mann­réttinda­full­trúinn getur ekki farið þá get ég ekki farið,“ segir Þór­hildur Sunna.

Öðru máli gegni hins vegar um skýrslu hennar um pólitíska fanga í Rúss­landi sem er í vinnslu. „Þar ætti ég að fara í vett­vangs­heim­sókn og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að sækjast efitr því í haust,“ segir hún og bætir við: „Þá er að sjá hvort þeir standi við stóru orðin eða hleypi mér inn í landið eins og þeim ber laga­leg skylda til þess að gera til þess ein­mitt að ég geti kynnt mér mér að­stæður pólitískra fanga í Rúss­landi.“