Íþróttafélagið Fjölnir og fasteignafélagið Reginn sendu inn tillögu til Reykjavíkurborgar á dögunum þar sem félagið viðraði hugmyndir um uppbyggingu keppnisaðstöðu Fjölnis. Samkvæmt þeim hugmyndum myndi framtíðarkeppnisaðstaða félagsins verða við Egilshöll þar sem félagið er nú með æfingaaðstöðu. Til þess lagði félagið fram fjögurra þrepa áfangaáætlun í samstarfi við Regin, sem myndi taka þátt í fjármögnuninni gegn samkomulagi um tuttugu ára leigusamning.

Fyrsta skref væri að snúa gervigrasvellinum sem er til staðar og koma upp viðunandi keppnis­aðstöðu sem stæðist leyfiskerfi KSÍ og UEFA með stúku fyrir allt að 1.500 manns sem væri að hluta til yfirbyggð. Næsta skref væri að byggja íþrótta- og lýðheilsukjarna við Egilshöll sem væri samtengdur öðrum mannvirkjum sem veitti vellinum skjól. Um leið myndi kjarninn leggja grundvöll fyrir fyrirhugaða íbúðabyggð þar sem á bilinu 400-500 íbúðir gætu risið.

„Félagið hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár og um leið vantar enn löglega keppnisaðstöðu. Við erum enn að notast við keppnisaðstöðu sem er sífellt á undanþágum og markmiðið er að finna endanlega niðurstöðu sem félagið getur nýtt til framtíðar. Við erum vön því að æfa úti um allt, en það væri gott að vera með heimili fyrir keppnisleiki og nokkurs konar hjarta fyrir knattspyrnudeild félagsins,“ segir Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis, aðspurður út í erindið.

„Þótt að við séum ungt félag sem er ekki með sömu sögu og hefð að baki og önnur Reykjavíkurlið erum við með flesta iðkendur í borginni. Það er ljóst af byggingaráformum næstu árin að hverfið muni stækka enn fremur. Fyrir vikið er von á fleiri iðkendum í félagið.“

Þótt að við séum ungt félag sem er ekki með sömu sögu og hefð að baki og önnur Reykjavíkurlið erum við með flesta iðkendur í borginni

Ef áformin ganga í gegn verður Fjölnir enn eitt liðið sem skiptir í upphitað gervigras, en Jón Karl segir að það hafi sýnt sig hjá öðrum félögum að nýtingin væri mun betri.

„Það hefur sýnt sig hjá öðrum félögum að nýtingarhlutfallið er mun betra þegar þessi aðstaða er til staðar. Það þarf ekki að fara lengra en að sjá muninn hjá Fylki og Val. Félögin hafa dregið úr tímunum inni í Egilshöll,“ segir Jón Karl og bætir við að með því að tengja þessi mannvirki saman gæti það reynst hagstætt.

„Þetta ætti að vera ódýrari kostur enda ertu ekki að byggja frá grunni heldur að hengja stúkuna við bygginguna. Um leið eykst notagildið þar sem það ætti að vera hægt að nýta mannvirkin betur þegar þau eru hluti af stærri heild.“